Hollendingar eru langt komnir með að tryggja sér sæti í lokakeppni heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu eftir sannfærandi sigur á Finnum í Amsterdam í dag, 4:0.
Hollendingar eru með 16 stig í G-riðili og eiga tvo leiki eftir. Pólverjar eru með 10 stig og eiga þrjá leiki eftir en þeir mæta Litháen í kvöld. Finnar eru með 10 stig en eiga aðeins einn leik eftir þannig að þeirra vonir um umspilssæti eru afar litlar eftir þennan ósigur.
Staðan var orðin 3:0 í hálfleik eftir að Memphis Depay hafði lagt upp mörk fyrir Donyell Malen og Virgil van Dijk og skorað svo sjálfur úr vítaspyrnu.
Cody Gakpo innsiglaði sigur Hollendinga með fjórða markinu undir lok leiksins.
Þá eru Skotar efstir í C-riðli eftir sigur á Hvíta-Rússlandi, 2:1, í Glasgow í dag. Þeir eru með 10 stig en Danir eru með 7 stig og mæta Grikkjum í kvöld.
Che Adams kom Skotum yfir á 15. mínútu og Scott McTominay bætti við marki á 84. mínútu eftir sendingu frá Andy Robertson en Gleb Kuchko minnkaði muninn fyrir Hvít-Rússa í uppbótartíma leiksins.
