Nálægt því að verða meistari í tveimur löndum

Diljá Ýr Zomers.
Diljá Ýr Zomers. Ljósmynd/Jon Forberg

Brann tók stórt skref í átt að Noregsmeistaratitlinum í fótbolta þegar liðið sigraði meistara Vålerenga, 4:2, í úrvalsdeild kvenna í Osló í dag. 

Eftir sigurinn er Brann komið með 62 stig, sjö stigum meira en Vålerenga þegar aðeins fjórir leikir eru eftir. 

Leikurinn var viðburðarríkur því Vålerenga skoraði fyrstu tvö mörk leiksins á 2. og 6. mínútu. Brann var hins vegar enga stund að jafna en á 11. mínútu var staðan orðin jöfn, 2:2. Brann komst síðan yfir undir lok fyrri hálfleiks og bætti við marki í þeim seinni. 

Landsliðskonan Diljá Ýr Zomers kom inn á 76. mínútu hjá Brann en verði liðið meistari þá verður hún meistari í tveimur löndum á sama árinu. Diljá varð nefnilega belgískur meistari með Leuven áður en hún færði sig yfir til Noregs eftir EM í sumar.

Sædís Rún Heiðarsdóttir kom inn á 60. mínútu hjá Vålerenga en Arna Eiríksdóttir var á bekknum. 

Selma Sól Magnúsdóttir var þá meidd þegar Rosenborg vann risastóran 8:0-sigur á Hönefoss í Þrándheimi. Rosenborg er með 52 stig í þriðja sæti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert