Stórt skref Dana – Pólland, Króatía og Rúmenía með sigra

Joachim Andersen fagnar eftir að hafa komið Dönum í 2:0.
Joachim Andersen fagnar eftir að hafa komið Dönum í 2:0. AFP/Mads Claus Rasmussen

Danir eru öruggir með að minnsta kosti umspilssæti í undankeppni heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu eftir sigur á Grikkum, 3:1, í Kaupmannahöfn í kvöld.

Danir og Skotar eru með 10 stig eftir fjórar umferðir af sex og bítast um hvort liðanna kemst beint á HM 2026. Grikkland með þrjú stig og stigalausir Hvít-Rússar eru úr leik í baráttunni.

Danir afgreiddu Grikki í fyrri hálfleik þegar Rasmus Höjlund, Joachim Andersen og Mikkel Damsgaard skoruðu en Christos Tzolis minnkaði muninn fyrir Grikki í síðari hálfleik.

Pólland á enn möguleika

Pólverjar geta enn komist beint á HM á kostnað Hollendinga eftir útisigur gegn Litháen í G-riðlinum í kvöld, 2:0. Sebaastian Szymanski skoraði fyrra markið og lagði það seinna upp fyrir Robert Lewandowski.

Holland er með 16 stig og Pólland 13 í G-riðlinum þegar bæði lið eiga tvo leiki eftir. Finnar eru með 10 stig en eiga aðeins einn leik eftir og möguleikar þeirra eru engir eftir tap í Hollandi fyrr í dag.

Króatar nánast öruggir

Króatar eru nánast komir á HM eftir sigur á Gíbraltar á heimavelli í kvöld, 3:0. Þeir eru með 16 stig og eiga tvo leiki eftir, auk þess að vera með fjórtán mörkum betri markatölu en Tékkar sem eru með 13 stig og eiga einn leik eftir. Færeyingar eru með 12 stig og eru í baráttu við Tékka um umspilssætið.

Það þarf einhverjar furðutölur í lokaleikjunum til að Tékkar komist beint á HM í stað Króata. Króatar þyrftu að tapa bæði fyrir Færeyjum á heimavelli og Svartfjallalandi á útivelli, og Tékkar þyrftu risasigur gegn Gíbraltar á heimavelli. Fimmtán mörk skilja að Króata og Tékka.

Toni Fruk, Luka Susic og Martin Erlic skoruðu fyrir Króata sem áttu í furðumiklum vandræðum með stigalaust lið Gíbraltar. Tvö síðari mörkin komu seint í leiknum.

Sigurmark á lokasekúndum

Rúmenar unnu dramatískan sigur á Austurríki, 1:0, í H-riðlinum og eru því enn með í baráttunni þar.

Austurríki er með 15 stig, Bosnía 13 og Rúmenía 10 þegar öll liðin eiga tvo leiki eftir.

Virgil Ghita skoraði sigurmark Rúmena á fimmtu mínútu í uppbótartíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert