Gana tryggði sér í kvöld sæti í lokakeppni heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu og er 21. þjóðin til að krækja sér í þátttökurétt á fyrsta 48 þjóða heimsmeistaramóti sögunnar.
Gana vann Kómoros-eyjar, 1:0, á heimavelli í lokaumferðinni í I-riðli undankeppninnar í Afríku. Madagaskar hefði þurft stórsigur gegn Malí til að geta farið upp fyrir Ganamenn en tapaði, 4:1, og sex stig skildu því liðin að.
Mohammed Kudus, leikmaður Tottenham, skoraði sigurmark Gana á 47. mínútu eftir sendingu frá fyrrverandi Arsenal-manninum Thomas Partey.
Þetta er í fimmta skiptið af síðustu sex sem Gana kemst í lokakeppni HM og í annað skiptið í röð.
Níu sigurvegarar riðlanna í Afríku fara á HM og eitt lið með bestan árangur í öðru sæti kemst í umspil milli heimsálfa.
Á undan Gana höfðu Marokkó, Túnis, Egyptaland og Alsír unnið sína riðla í Afríku og tryggt sér sæti á HM.
Hin fjögur sætin ráðast á næstu tveimur dögum og um þau berjast þessar þjóðir:
B-riðill: Senegal og Kongó.
C-riðill: Benín, Suður-Afríka og Nígería.
D-riðill: Grænhöfðaeyjar og Kamerún.
F-riðill: Fílabeinsströndin og Gabon.