Marko Arnautovic, landsliðsmaður Austurríkis í fótbolta, bætti markamet þegar hann skoraði sitt 45. landsliðsmark. Austurríkismenn niðurlægðu lið San Marino 10:0 á föstudag.
Arnautovic skoraði fjögur mörk í leiknum og vakti sérstaka athygli að hann sótti boltann úr netinu eftir hvert mark og var greinilega mikið í mun að ná að slá metið.
Toni Polster, sem hefur verið handhafi markametsins í tæplega þrjátíu ár, eða frá árinu 1996, óskaði Arnautovic til hamingju með að slá metið, en gagnrýndi andstæðinga austurríska liðsins harkalega: „Þetta er ekki landslið, þetta er úrvalslið pitsabakara. Þegar ég var að spila var ekki til svona slakt landslið. Ég óska Marko til hamingju og vona að hann skori mörg mörk til viðbótar.“
Hann var þó fljótur að bæta við að Arnautovic hafi spilað fleiri landsleiki. Arnautovic hefur nú spilað 128 landsleiki en Polster spilaði 95 landsleiki á árunum 1982 til 2000.
Samkvæmt fréttum ætlar hann að halda áfram að berjast fyrir þremur af landsliðsmörkum sínum sem ekki eru opinberlega viðurkennd og ætlar hann að leita réttar síns í því máli.
Hann skoraði þessi þrjú mörk í leikjum árið 1984 en leikirnir voru ekki skráðir sem opinberir landsleikir. Polster er ekki sáttur við það og vill að þessi mörk séu tekin gild. Þá væri hann kominn með 47 mörk og væri því aftur handhafi markametisins.