Færeyska karlalandsliðið í knattspyrnu heldur áfram að skrifa söguna. Í gærkvöldi vann liðið frækinn sigur á Tékklandi, 2:1, í Þórshöfn, og er aðeins einu stigi á eftir Tékkum í baráttunni um annað sæti L-riðils í undankeppni HM 2026.
Færeyjar hafa nú unnið þrjá keppnisleiki í röð í fyrsta sinn í sögunni.
Auk þess hefur liðið unnið alls fjóra leiki í undankeppninni. Hafa Færeyjar aldrei áður unnið svo marga leiki í einni undankeppni og aldrei fyrr fengið jafn mörg stig, tólf.
Þeim getur enn fjölgað en liðið á þó fyrir höndum gífurlega erfitt verkefni í lokaumferðinni, útileik gegn Króatíu í næsta mánuði.
Tékkland á heimaleik gegn Gíbraltar á sama tíma, sem ætti að vera auðvelt verkefni fyrir Tékka, en Færeyingar halda enn í veika von um að komast í umspil fyrir sitt fyrsta stórmót í sögunni.
