Knattspyrnumaðurinn ungi Tómas Johannessen hefur skrifað undir nýjan samning við AZ Alkmaar í Hollandi til næstu fjögurra ára, eða til sumarsins 2029.
Tómas, sem er 18 ára gamall sóknartengiliður, kom til AZ frá Gróttu fyrir tveimur árum og hefur leikið með U18 og U19 ára liðum hollenska félagsins. Þar leikur hann m.a. með félaginu í Evrópudeild unglinga í vetur.
Þá er hann kominn í hóp hjá varaliði félagsins, Jong AZ, sem leikur í hollensku B-deildinni.
Tómas hafði þegar skorað fimm mörk fyrir Gróttu í 23 leikjum í 1. deildinni áður en hann fór sextán ára gamall til Hollands. Hann á að baki 27 leiki með yngri landsliðum Íslands og hefur skorað í þeim 6 mörk.
„Tómas kom fyrst hingað fyrir tveimur og hálfu ári og bjó hjá fósturfjölskyldu en býr nú sjálfstætt. Það er aðdáunarvert hvernig hann hefur aðlagast hérna. Hann hefur sannfært okkur um að hann sé spennandi framtíðarleikmaður og við höfum trú á því að hann geti unnið sér sæti í aðalliði félagsins með viðkomu hjá Jong AZ," segir Paul Brandenburg, yfirþjálfari unglingaliða AZ, á heimasíðu félagsins.
Sjálfur segir Tómas þar að markmiðið sé að komast í byrjunarlið varaliðsins, Jong AZ, á þessu keppnistímabili.