Síðasti októberglugginn í bili

Íslenska liðið hefur æft saman frá 6. október.
Íslenska liðið hefur æft saman frá 6. október. mbl.is/Hulda Margrét

Hinn svokallaði októbergluggi í karlafótboltanum, landsleikjahléið um miðjan október sem nú stendur yfir, er sá síðasti að sinni vegna breytinga á keppnisdagatali FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandsins.

Frá og með næsta hausti, 2026, verða landsleikjahléin í september og október sameinuð í eitt þriggja vikna hlé þar sem landsliðin hafa svigrúm til að spila fjóra leiki.

Það kemur í stað þess að spila tvo leiki snemma í september og aðra tvo um miðjan október.

Fyrir íslenska karlalandsliðið þýðir þetta að það mun spila fjóra af sex leikjum sínum í Þjóðadeildinni 2026-27 í þessum nýja glugga sem verður á bilinu 21. september til 9. október. Á þeim tíma verður gert eitt langt hlé í öllum landsdeildum í stað tveggja tíu daga hléa eins og verið hefur undanfarin ár.

FIFA hefur fest þetta fyrirkomulag í sessi til fjögurra ára, eða til ársins 2030 hið minnsta.

Nóvemberglugginn verður áfram á sínum stað um miðjan nóvember þar sem landsliðin geta spilað tvo leiki hvert, rétt eins og verið hefur.

Ef þetta hefði komið til framkvæmda á þessu hausti hefði leikjaplan Íslands fyrir september og október getað litið svona út:

Föstudagur 26. september: Ísland - Aserbaídsjan
Þriðjudagur 30. september: Frakkland - Ísland
Laugardagur 4. október: Ísland - Úkraína
Þriðjudagur 7. október: Ísland - Frakkland

Liðið hefði þá komið saman mánudaginn 22. september og leikmennirnir farið aftur til sinna félagsliða 8. október, eftir sextán daga samvistir.

Núna kom liðið saman 6. október og leikmennirnir snúa aftur til sinna liða á morgun, 14. október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert