Heimir Hallgrímsson sá lærisveina sína í írska landsliðinu í fótbolta vinna heimasigur á Armeníu, 1:0, í undankeppni HM í Dublin í gærkvöldi.
Á sama tíma gerðu Portúgal og Ungverjaland jafntefli, 2:2, sem gerir Írlandi erfiðara fyrir í baráttunni um sæti á HM. Heimir sagði þó eftir leik að úrslitin í þeim leik breyti litlu fyrir sitt lið.
„Það breytir í raun litlu. Við þurftum alltaf að vinna í Ungverjalandi. Núna lítur það út fyrir að við þurfum stig á móti Portúgal eða að Armenía geri okkur greiða.
Armenar eru erfiðir við að eiga, eru hugrakkir og með mikinn baráttuanda,“ sagði Heimir við írska fjölmiðla eftir leikinn.
Hann var ánægður með sigurinn þrátt fyrir að frammistaðan hafi ekki verið stórkostleg.
„Fyrir fram hefðum við verið sáttir við ljótan 1:0-sigur og þetta var líklegast svoleiðis. Við héldum markinu hreinu og tökum það jákvæða í næstu leiki,“ sagði Heimir.
