Dramatískur sigur hjá Glódísi og stöllum

Glódís Perla Viggósdóttir í leik með Bayern München.
Glódís Perla Viggósdóttir í leik með Bayern München. Ljósmynd/FC Bayern

Bayern München vann hádramatískan sigur á Juventus, 2:1, í 2. umferð deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu kvenna í kvöld.

Glódís Perla Viggósdóttir var á sínum stað í vörn Bayern með fyrirliðabandið og lék allan leikinn.

Um fyrsta sigur Bayern var að ræða í keppninni en liðið steinlá, 7:1, gegn Barcelona í fyrstu umferð.

Pernille Harder kom Bæjurum í forystu á 11. mínútu í kvöld áður en Eva Schatzer jafnaði metin sex mínútum síðar.

Þegar allt virtist stefna í jafntefli var það Lea Schüller sem skoraði sigurmark heimakvenna í Bayern á fimmtu mínútu uppbótartíma venjulegs leiktíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert