Það vakti nokkra athygli þegar knattspyrnumaðurinn Hólmbert Aron Friðjónsson samdi við Gwangju FC, sem leikur í efstu deild Suður-Kóreu, í sumar og varð þar með fyrsti Íslendingurinn til að spila í landinu.
„Þetta er búið að vera mjög skemmtilegt. Þetta er náttúrlega nýtt fyrir mér og mér fannst þetta spennandi kostur þegar hann kom á borðið. Allt er búið að vera frábært fyrir utan kannski að ég er búinn að eiga í erfiðleikum með veðrið hérna,“ sagði Hólmbert í samtali við Morgunblaðið.
„Það er mikill hiti og við erum á æfingum seinnipartinn, út af því að það er svo mikill hiti. Þegar ég kom fyrst voru 36-37 gráður og rakastig upp á 90 prósent þannig að það var helvíti þungt.
Það var einhvern veginn erfitt að aðlagast því. En það er aðeins farið að kólna núna þannig að mér líður aðeins betur,“ útskýrði hann nánar um veðráttuna í Gwangju, sem er borg með 1,4 milljónir íbúa.
Fyrst um sinn fluttist Hólmbert einn út til Suður-Kóreu en kærasta hans og dóttir þeirra komu svo út til hans.
„Ég var einn í einn og hálfan mánuð og þær komu svo fyrir mánuði síðan. Dóttir mín, sem er 15 mánaða, og konan. Eins og er erum við í mjög fínni hótelíbúð í miðbænum í Gwangju. Það fer mjög vel um okkur,“ sagði Hólmbert.
Eins og nærri má geta upplifir fjölskyldan öðruvísi menningu í Suður-Kóreu en hún hefur átt að venjast en Hólmbert hafði fyrir þessi skipti einungis leikið í Evrópu á atvinnumannsferlinum.
„Þetta er klárlega öðruvísi menning. Allir stafirnir eru ólesanlegir og þetta er allt svolítið öðruvísi. En ef ég á að vera alveg hreinskilinn er þetta búið að fara fram úr mínum björtustu vonum. Ég bjóst kannski ekki alveg við að fíla þetta svona mikið.
Ég hélt kannski að maður þyrfti aðeins að venjast þessu en þetta er búið að vera mjög indælt. Fólkið hérna er alveg yndislegt, sama hvort ég fer út í búð eða á æfingasvæðið eða hvað sem það er. Það eru allir tilbúnir að gera allt til þess að hjálpa manni. Það taka allir á móti manni með bros á vör. Það er það sem ég get sagt um Kóreubúann, hversu indæll og góður hann er. Það hjálpar manni mjög mikið við að fíla þetta meira,“ sagði hann.
Vissirðu mikið um Suður-Kóreu áður en þú ákvaðst að slá til og flytja?
„Þegar ég var 27 ára fékk ég tilboð frá Suður-Kóreu um að koma út en mér fannst ég vera of ungur til þess að fara til Asíu á þeim tíma. Mig langaði að prufa að reyna áfram fyrir mér í Evrópu. Það er erfiðara að fara strax til Asíu frá Evrópu, mig langaði að vera lengur og reyna fyrir mér þar.
Ég hélt að það yrði kannski erfiðara að fara aftur til Evrópu ef maður myndi ekki fíla Suður-Kóreu eða hvernig sem það væri þannig að ég ákvað að slá ekki til þá. Ég sagði við konuna mína sumarið 2024, þegar ég var samningslaus þá, að mig langaði alltaf að prufa þetta.
Nema þá var hún ólétt og átti að eiga í júlí síðasta sumar þannig að hún var ekki alveg tilbúin í að fara í eitthvað svona með nýfætt barn og vita ekkert hvað við værum að fara út í. Við settum það á bið og vorum áfram í Þýskalandi í eitt ár.
Svo vorum við búin að ákveða að ef þetta myndi koma upp núna og að það væri rétt þá myndum við slá til og prufa eitthvert svona ævintýri. Mig hefur alltaf langað til að prufa þetta.
Ég hef fylgst aðeins með þessu, verið spenntur og viljað prufa þetta. Ég hef fengið einhverjar fyrirspurnir um hvort mig langi að koma og hvort ég sé til í þetta. Um leið og ég fékk leyfi frá fjölskyldunni vildi ég prufa þetta,“ sagði Hólmbert, sem er 32 ára gamall.
Eftir að hafa leikið með Preussen Münster og Holstein Kiel í Þýskalandi, Brescia á Ítalíu og Aalesund í Noregi undanfarin ár komu skipti til Asíu flestum á óvart. Eins og hann nefndi höfðu slík skipti hins vegar vakið áhuga Hólmberts í gegnum tíðina. En hvernig komu skiptin til Gwangju til?
„Maður hefur sankað að sér umboðsmönnum í gegnum ferilinn. Mínir umboðsmenn hafa verið í sambandi við þá aðila sem eru klárir og kunna á markaðinn hérna úti og hafa alltaf viljað fá mig til Suður-Kóreu.
Þeir hafa sagt við mig að það gæti verið gott skref fyrir mig að prufa þetta. Síðustu 4-5 ár hafa alltaf einhverjir verið að tékka á mér, hvort ég vilji koma, hvort það sé einhver möguleiki og eitthvað svona, en ég hef einhvern veginn aldrei getað það fyrr en núna.
Núna kom þetta upp rétt fyrir gluggalok. Mér leist vel á og langaði að prufa. Þetta gerðist á einum degi. Svo var ég farinn upp í flugvél, einn á leiðinni til Asíu, sem var svolítið súrrealískt. En ég sé ekki eftir því.
Þetta er búið að vera mjög fínt og maður er að reyna að aðlagast boltanum. Þó maður sé kannski ekki í besta forminu, var í þrjá mánuði án félags og var að æfa einn, þá er maður búinn að reyna að æfa og koma sér í stand.
Svo var það veðrið sem var ekkert eðlilega erfitt. Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá hef ég alltaf átt erfitt með mikinn hita og það er búið að vera á einhverju allt öðru stigi hérna.
Maður er bara að reyna að anda á æfingum einhvern veginn. Það er búið að vera erfitt og ég er án gríns feginn að það sé byrjað að kólna aðeins núna, komið niður í 27-28 gráður. Það er aðeins byrjað að kólna og það er helvíti gott,“ sagði hann.
Hólmbert sagði það ekki mikið tiltökumál að flytja á milli landa í Evrópu samanborið við að leggja land undir fót og flytja til Suður-Kóreu.
„Ég var í Þýskalandi í fjögur ár þannig að það var kannski ekki svo mikið vesen en þetta er einhvern veginn aðaláskorunin, að vera kominn hingað og prufa þetta. Þegar ég kem aftur út í janúar ætlum við að finna íbúð, þannig að við erum núna í smá millibilsástandi.
Við erum að koma okkur fyrir og búum í þessari hótelíbúð. En þetta var alveg stressandi fyrir fjölskylduna, sérstaklega þegar þær komu. Það er náttúrlega níu tíma munur og dóttir mín er bara 15 mánaða.
Við þurftum að koma henni yfir á þennan tíma og það tók líka ágætis tíma að láta hana fara að sofa á eðlilegum tíma, að láta hana venjast því að það væri nótt hjá henni þegar hún hafði í raun verið að vakna á morgnana.
Það var alveg smá erfitt en hún er núna komin í góðan takt. Þá fer þetta allt að líta betur út. Maður fer að venjast og vita hvar kaffihúsið er, hvar búðin er og næsti róló. Þá verður þetta allt miklu betra.“
Hann kvaðst ánægður með gæði suðurkóresku deildarinnar. „Það hefur komið mér virkilega á óvart því þessir Kóreugæjar eru virkilega teknískir og góðir í fótbolta. Ég var stóri gæinn í Þýskalandi, tveggja metra og 100 kílóa maður.
Þess vegna hélt ég kannski að þetta yrði aðeins þægilegra, að berjast við léttari Kóreubúa, en þeir eru bara mjög líkamlega sterkir. Þetta er búið að vera mjög skemmtilegt og kemur mér mikið á óvart. Það eru mjög mikil gæði hérna. Það er mjög spennandi.“
Gwangju leikur heimaleiki sína á 40.000 manna velli sem var byggður sérstaklega fyrir HM 2002, sem fór fram í Suður-Kóreu og Japan.
„Þegar ég kom hérna og skrifaði undir fór ég að horfa á minn fyrsta leik og þá voru um 15.000 manns. Svo voru 10.000 manns þegar ég spilaði fyrsta heimaleikinn minn. Ég segi ekki slæm mæting, en kannski miðað við völlinn, World Cup Stadium, sem var byggður fyrir HM hérna 2002.
Aðdáendahópur Gwangju er kannski ekkert sá besti í fótboltanum en hann er ágætur. Hafnaboltinn er mjög vinsæll hérna í Gwangju.
Aðalliðið hérna er víst hafnaboltaliðið. Fótboltinn er svona að vinna sig upp í það, í þessari borg sérstaklega, að koma sér á þann stall.
Það væri gaman að geta fyllt þennan völl en það er kannski ekki raunhæft. Ég bjóst við að það yrðu fleiri á leikjunum en þá fékk ég að vita að aðalíþróttin hérna úti væri hafnabolti. Ég vissi það ekki fyrr en ég kom hingað.
Það kom mér á óvart en þá áttaði ég mig á því að þess vegna væru ekki alltaf fullir vellir. En það eru mörg lið hérna þar sem það er tilfellið. Ég er búinn að spila nokkra leiki í deildinni á útivöllum og það eru tveir til þrír vellir búnir að vera fullir, þar sem er kannski aðeins meiri stemning fyrir fótboltanum.
Það er bara gaman. En þetta jafnast samt ekkert á við Þýskaland því það eru alltaf fullir vellir þar sama hvar það er. Það var svolítið skemmtilegt og það sem maður saknar kannski helst við að fara eitthvað annað en í Þýskalandi. Vonandi verður þetta eitthvað aðeins betra,“ sagði Hólmbert Aron Friðjónsson að lokum í samtali við Morgunblaðið.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
