Hansi Flick, knattspyrnustjóri Barcelona á Spáni, er ekki sáttur við þær sögusagnir að félagið hafi bannað honum að refsa Lamine Yamal fyrir að vera of seinn á fund.
Einhverjir spænskir miðlar greindu frá því að Yamal hefði verið of seinn á fund og að Flick hefði ætlað að refsa Spánverjanum unga með því að taka hann úr byrjunarliðinu í leik liðsins við París SG á dögunum.
Þá hafi forráðamenn félagsins haft samband og bannað honum að hafa Yamal á bekknum. Flick segir þetta af og frá.
„Afsakið orbragðið en þetta er algjör vitleysa. Ég er með gott samband við alla innan félagsins og þeir myndu aldrei biðja mig um eitthvað svona. Ég hef ekkert að fela,“ sagði Flick á blaðamannafundi í gær.
