Bayern München hafði betur gegn Evrópumeisturum París SG, 2:1, í bráðskemmtilegum leik í 4. umferð Meistaradeildar karla í fótbolta í París í kvöld.
Bayern lét það ekkert trufla sig að vera á útivelli í kvöld og setti mikla pressu á Evrópumeistarana frá fyrstu mínútu. Á 4. mínútu datt boltinn fyrir Michael Olise inni í teig sem reyndi skot. Lucas Chevalier varði skotið út í teig en þar var Luis Diaz sem kom boltanum í netið og Bayern yfir, 1:0.
Ousmane Dembélé kom boltanum síðan í netið af stuttu færi en var réttilega dæmdur rangstæður og þurfti tveimur mínútum síðar að fara af velli vegna meiðsla.Á 32. mínútu vann Luis Diaz boltann framarlega á vellinum og kom honum í netið og Bayern í tveggja marka forystu.
Diaz varð síðan skúrkurinn því á þriðju mínútu uppbótartíma fyrri hálfleiks reyndi hann skelfilega tæklingu á Achraf Hakimi og fékk réttilega rautt spjald fyrir vikið.
Bayern setti síðan í lás í seinni hálfleik og ekkert gekk hjá París að koma boltanum í netið. París náði hins vegar að klóra í bakkann á 74. mínútu er Joao Neves kom boltanum í netið af stuttu færi.
Fleiri urðu mörkin ekki og hefur Bayern nú unnið alla sína leiki á þessari leiktíð.
Liverpool hafði betur gegn Real Madrid, 1:0, og hægt er að lesa um hann hér:
Atletico Madrid sótti þægilegan sigur gegn belgíska liðinu Royale Union, 3:1, í Madrid. Julian Alvarez skoraði fyrsta mark leiksins þegar hann reyndi skot á lofti inni í teig sem söng í netinu. Rétt undir lok fyrri hálfleiks kom Antoine Griezman hjá Madrid boltanum í netið en var réttilega dæmdur rangstæður.
Conor Gallagher kom Madrid síðan í 2:0 í seinni hálfleik þegar hann fékk boltann inni í teig og þrumaði honum í netið. Ross Sykes minnkaði síðan muninn á 80. mínútu er Ross Sykes skallaði boltann í netið en Marcos Llorente gulltryggði sigurinn á 6. mínútu uppbótartíma og vann Atletico 3:1.
Í Lundúnum tók Tottenham á móti FC Köbenhavn, þar sem Rúnar Alex Rúnarsson og Viktor Bjarki Daðason voru báðir í leikmannahópi FCK.
Brennan Johnson kom Tottenham yfir snemma leiks er hann kom boltanum í opið markið eftir mistök hjá Kotarski í marki FCK. Viktor Bjarki kom inn af varamannabekknum í hálfleik en stuttu seinna kom Wilson Odobert Tottenham í tveggja marka forystu.
Á 57. mínútu reyndi Johnson glórulausa tæklingu sem olli því að dómari leiksins gaf honum rautt spjald og Tottenham því manni færri síðustu 30 mínúturnar. Það truflaði ekki Lundúnaliðið því á 64. mínútu keyrði Mickey Van de Ven upp allan völlinn og kom Tottenham í 3:0. Joao Palinha kom síðan Tottenham í 4:0 og gerði endanlega út um leikinn.
Juventus og Sporting skildu jöfn í Torino,1:1. Maximiliano Araujo kom Sporting í forystu snemma leiks með flottu skoti inni í teig. Dusan Vlahovic jafnaði síðan metin á 34. mínútu eftir sendingu frá Khéphren Thuram.
Mónakó hafði betur gegn Bodö/Glimt í Noregi, 1:0. Folarin Balogun skoraði eina mark leiksins sem kom á 43. mínútu er hann átti flott skot úr þröngu færi sem söng í þaknetinu.
Í Grikklandi skildu Olympiacos og PSV Eindhoven frá Hollandi jöfn, 1:1, þar sem Gelson Martins skoraði fyrsta mark leiksins á 17. mínútu. Jöfnunarmarkið kom síðan á annarri mínútu uppbótartíma og var það varamaðurinn Ricardo Pepi sem bjargaði Hollendingnum.
Tveir leikir voru spilaðir klukkan 17:45 fyrr í dag þar sem Arsenal hafði betur gegn Slavía Prag og Napolí og Eintracht Frankfurt skildu jöfn. Hægt er að lesa um leikina hér: