Liverpool sannfærandi gegn spænska stórveldinu

Alexis Mac Allister fagnar marki sínu af innlifun í kvöld.
Alexis Mac Allister fagnar marki sínu af innlifun í kvöld. AFP/Paul Ellis

Liverpool vann góðan sigur á Real Madrid á Anfield í kvöld og styrkti þar með stöðu sína í deildarkeppni Meistaradeildarinnar en um var að ræða fjórðu umferð deildarkeppnarinnar. 

Leiknum lauk með 1:0 sigri Liverpool, sem fer nú upp í sjötta sæti með níu stig. Real Madrid eru einnig með níu stig en eru með markatöluna yfir Liverpool og eru því sæti ofar.

Sigurinn var mjög sanngjarn enda voru Liverpool yfir á nær öllum sviðum fótboltans í kvöld. 

Umdeildur dómur 

Ekkert var skorað í fyrri hálfleiknum en besta færi hálfleiksins kom þó eftir 28 mínútna leik er Ungverjinn Dominik Szoboszlai komst í dauðafæri eftir góða fyrirgjöf Florian Wirtz en Thibaut Courtois í marki Real Madrid varði frábærlega.

Stuttu seinna varð svo stórt atvik er Tchoumeni fékk boltann í hendina við vítateigslínuna. Dómari leiksins dæmdi fyrst um sinn aukaspyrnu. Rúmeninn var þó sendur í skjáinn til að skoða hvort atvikið hefði verið innan teigs en ákvað að dæma ekkert að lokum og mat það sem svo að hönd Frakkans hefði verið í náttúrulegri stöðu, mjög svo umdeildur dómur.

Besta færi Real Madrid í fyrri hálfleik fékk Jude Bellingham er hann sólaði Konate innan teigs og kom sér í gott færi einn gegn Giorgi Mamardashvili innan teigs en Georgíumaðurinn varði vel úr þröngu færi.

Argentínumaðurinn skoraði sigurmarkið

Strax í upphafi fyrri hálfleiks þurfti Courtois tvívegis að verja vel eftir skalla í kjölfar hornspyrnu en bæði skiptin varði Belginn stóri og stæðilegi. Fyrst frá Virgil Van Dijk og svo frá Hugo Ekitike.

Liverpool tók svo loks forystuna á 61. mínútu er Argentínumaðurinn Alexis Mac Allister skallaði inn fyrirgjöf Szoboszlai úr aukaspyrnu. Skallinn beint á Courtois en of fastur og Belginn því loks sigraður.

Undir lok leiks var Cody Gakpo sem var nýkominn inn á sem varamaður hársbreidd frá því að tvöfalda forystuna en enn og aftur varði Courtois vel í markinu. 1:0 sigur Liverpool varð því niðurstaðan.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Liverpool 1:0 Real Madrid opna loka
96. mín. Real Madrid fær gult spjald Xabi Alonso fær gult fyrir tuð á bekknum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert