Landsliðsfyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir náði stórum áfanga á ferlinum í gærkvöld þegar hún lék með Bayern München gegn Nürnberg í þýsku 1. deildinni.
Glódís kom inn á sem varamaður í stórsigri þýsku meistaranna, 5:0, og lék þar með sinn 300. deildaleik á ferlinum.
Þar af er 231 leikur í atvinnumennsku erlendis með Bayern München og sænsku liðunum Rosengård og Eskilstuna, og 69 leikir í íslensku deildakeppninni með HK/Víkingi og Stjörnunni.
Glódís er þrettánda íslenska knattspyrnukonan sem nær að spila 300 deildaleiki á ferlinum og önnur sem nær því á þessu ári. Arna Sif Ásgrímsdóttir lék sinn 300. leik undir lok Íslandsmótsins í haust.
Leikjahæst allra íslenskra knattspyrnukvenna er Sif Atladóttir með 375 deildaleiki.
Glódís er á sínu sautjánda ári í meistaraflokki en hún lék fyrst 14 ára gömul með HK/Víkingi. Hún hefur unnið meistaratitla í öllum þremur löndunum, Íslandi, Svíþjóð og Þýskalandi.
