Ræða Guðjóns kveikti neista

ÍSLENSKA landsliðið tók upp þráðinn þar sem frá var horfið sl. haust í 4. riðli undankeppni Evrópumótsins þegar það hóf keppni á ný á þessu ári með 2:0 sigri á Andorra í Andorra á laugardaginn. Þar með er Ísland í 3. sæti riðilsins, með átta stig, næst á eftir heimsmeisturum Frakka á markamun, en Úkraínumenn, næstu andstæðingar Íslendinga í riðlinum, eru efstir sem fyrr. Sigurinn var hins vegar ekki auðsóttur í greipar Andorramanna og kom þar einkum til; sérlega slakur leikur íslenska liðsins í fyrri hálfleik, svo slakur að óhætt er að segja að miklum vonbrigðum olli. Heimamenn nýttu sér þessa slöku framgöngu gesta sinna til þess að skapa sér færi og ekki hefði verið ósanngjarnt að þeir hefðu verið með yfirhönd í hálfleik, 1:0, til 2:0 í stað 0:0 sem raun varð á. Kyngimögnuð ræða Guðjóns Þórðarsonar landsliðsþjálfara í leikhléi vakti menn hins vegar af Þyrnirósarsvefni og allt annað var að sjá leik liðsins eftir hana.Fyrir leikinn var lagt upp með að leika sóknarleik, vitað var að andstæðingurinn væri ekki ýkja sterkur á knattspyrnusvellinu, helsti styrkleiki þeirra lægi í sterkri og fjölmennri vörn sem hingað til hefði bitið hressilega frá sér jafnt gegn Úkraínumönnum og heimsmeisturum Frakka. Til þess að finna leiðir gegnum varnarvegginn átti að leika stutt á milli manna og einnig að sækja upp kantana. Fyrstu átta til tíu mínútur leiksins virtist sem íslenska liðið ætlaði að fara að fyrirmælum þjálfara síns, Guðjóns Þórðarsonar. Andstæðingurinn hélt sig aftarlega á þröngum keppnisvellinum og íslensku leikmennirnir voru meira með boltann.

 Það hefur e.t.v. ekki verið helsti styrkleikur íslenska landsliðsins í knattspyrnu að vera með stjórn á leik og sækja og það kom í ljós. Eftir að í ljós kom að íslenska liðið virtist vera með töglin og hagldirnar færðist ró yfir menn, þeir urðu værukærir og jafnvel kærulausir og þar með gáfu þeir leikmönnum Andorra lausan tauminn. Miðvallarleikmenn Íslands skiluðu ekki sínu starfi og varnarmennirnir virtust ekki reikna með að til þeirra kasta gæti komið. Um tíma virtist allt í kalda koli í vörninni og í fyrri hálfleik fengu heimamenn fjögur upplögð marktækifæri og ekkert nema þeirra eigin klaufaskapur að öll fóru þau í súginn. Tvisvar komust sóknarmenn Andorra einir inn fyrir vörnina og áttu aðeins Birkir Kristinsson markvörð eftir þegar þeim féll allur ketill í eld. Einu sinni var líklega um rangstæðu að ræða en því miður fyrir íslenska liðið afsakar yfirsjón aðstoðardómara ekki slakan leik.  Guðjón þjálfari var greinilega allt annað en ánægður með frammistöðu sinna manna. Hann reyndi án árangurs að koma skilaboðum áleiðist, en fátt breyttist. Liprum leikmönnum heimamanna óx sjálfstraust er þeir sáu að þeir áttu í fullu tré og rúmlega það við gesti sína. Ómarkviss sóknarleikur Íslands skilaði þremur færum í fyrri hálfleik, en fyrst og fremst voru þau ekki fleiri sökum slaks leiks og því að ekki var gert eins og fyrir hafði verið lagt. Ísland fékk sína fyrstu hornspyrnu á 14. mínútu leiksins en hún breytti engu. Skömmu síðar skallaði Eyjólfur Sverrisson yfir eftir hornspyrnu Arnars Gunnlaugssonar, skot Helga Sigurðssonar og Þórðar Guðjónssonar úr vítateignum voru varin eftir að færi sköpuðust fremur fyrir tilviljun en hitt. Þá átti Arnar Gunnlaugsson skot rétt framhjá markstöng Andorra áður en yfir lauk.  Eftir hressilegan reiðilestur Guðjóns í hálfleik var sem allt annað íslenskt lið mætti til leiks í síðari hálfleik. Leikmenn voru einbeittir og blésu til sóknar. Strax á fyrstu mínútu var Eyjólfur í upplögðu færi er hann var felldur innan vítateigs en dómarinn horfði framhjá brotinu. Í kjölfarið fylgdu tvær mjög góðar aukaspyrnur Þórðar Guðjónssonar sem góður markvörður Andorra, Jesus Alvarez de Eulate, þurfti að hafa sig allan við að verja. Íslenska liðið var greinilega komið á skrið, andstæðingurinn varð að bakka en virtist hins vegar ekki geta flúið örlög sín. Hver sókn íslenska liðsins á eftir annarri buldi á marki Andorra og aðeins tímaspursmál hvenær ísinn yrði brotinn. Eyjólfur hafði komið í stöðu Arnars framarlega og með dugnaði og elju Eyjólfs tókst að veita vörn Andorra hverja skráveifuna á fætur annarri. Til þess að kóróna frammistöðu sína opnaði Eyjólfur markareikning Íslands á 12. mínútu síðari hálfleik.  Við markið færðu Andorramenn sig örlítið framar og við það opnaðist vörnin meira, en aukinn sóknarþungi heimamanna varð hins vegar vart til þess að slá einbeitt íslenskt landslið út af laginu. Steinar Adolfsson bætti við öðru markinu á 66. mínútu og þar með var björninn unninn. Lið Andorra reyndi að klóra í bakkann en hafði ekki erindi sem erfiði, Íslendingar voru nærri því að bæta við en hitt og besta færið fékk Hermann Hreiðarsson er hann geystist upp vinstri vænginn og lauk spretti sínum með skoti í slá. Nærri komust Íslendingar ekki að bæta við forskot sitt, en þegar ljóst var að öruggur sigur var í höfn færðist ról yfir leikinn síðustu mínúturnar.  Þetta er annar leikurinn í röð þar sem fyrri hálfleikurinn er mjög slakur hjá Íslandi og með það í huga er vert að hafa áhyggjur af leiknum við Úkraínu á miðvikudagskvöldið. Þá geta leikmenn ekki leyft sér annað en vera með á nótunum frá fyrstu mínútu, annars mun fara mjög illa. Þá verður of seint að vakna við skammir í hálfleik. Hins vegar virðist vera fyrir hendi vilji og kraftur til góðra verka, menn eru tilbúnir að líta í eigin barm og viðurkenna mistök og slakan leik og þá er bara að læra af reynslunni. Leikurinn var góð kennslustund, hann sýndi að íslenska liðið getur rifið sig upp úr hjólförunum og hætt að spóla, hann sýndi einnig því miður slæmu hliðar liðsins. Á þeim tíma geta menn þakkað fyrir hversu slakur andstæðingurinn var að íslenska liðið lenti í verulega kröppum dansi því það hefði ekkert verið neitt gamanmál að vera 2:0 undir í hálfleik. Þar gripu e.t.v. forlögin í taumana í bland við sérstakan klaufaskap leikmanna Andorra. Ívar Benediktsson skrifar frá Andorra Morgunblaðið/RAX  HELGI Sigurðsson skallaði knöttinn fyrir fætur Steinars Adolfssonar, sem lá inni í vítateig Andorramanna. Steinar náði að spyrna knettinum í netið og gulltryggja sigur Íslands, 2:0. Á myndinni hér til hliðar fagnar Steinar (5) marki sínu ásamt Stefáni Þórðarsyni.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert