Gunnlaugur og Olga valin bestu knattspyrnumennirnir

Gunnlaugur og Olga með verðlaunagripi sína.
Gunnlaugur og Olga með verðlaunagripi sína. mbl.is/Ásdís
Gunnlaugur Jónsson, fyrirliði Íslandsmeistara ÍA, og Olga Færseth leikmaður KR, voru valin bestu leikmenn í kvenna- og karlaflokki á lokahátíð Knattspyrnusambands Íslands sem haldið var í kvöld. Grétar Rafn Steinsson, ÍA, og Dóra Stefánsdóttir, Val, voru valin efnilegustu leikmennirnir. Þetta val er toppurinn á knattspyrnuferli mínum til þessa," sagði Gunnlaugur í samtali við Morgunblaðið þegar hann hafði tekið við viðurkenningarbikar af þessu tilefni. "Að vera valinn besti leikmaður Íslandsmótsins er einn mesti heiður sem knattspyrnumanni er sýndur hér á landi. Það sem gefur þessu enn meira gildi er að það eru andstæðingarnir sem velja."

Aðspurður sagðist Gunnlaugur hálft í hvoru hafa átt von á því að verða fyrir valinu. "Það er þó aldrei hægt að vera viss því það komu svo sannarlega fleiri til greina. Ég held að það sem reið baggamuninn fyrir mig hafi verið Íslandsmeistaratitillinn sem við Skagamenn unnum. Sumarið var eitt ævintýri fyrir okkur Skagamenn," sagði Gunnlaugur. Olga sagði það vera fullvíst að hún hefði verið að leika sitt besta keppnistímabil. "Ég náði mér vel á strik í sumar enda var ég í ágætu formi og sennilega hefur það ráðið mestu um að ég varð fyrir valinu. Útnefningin er ekki aðeins heiður fyrir mig heldur allt KR-liðið," sagði Olga og bætti því við að hún væri staðráðin í að leika með KR á næstu leiktíð, ekki stæði fyrir dyrum að skipta um félag.

Efnilegustu knattspyrnumennirnir voru einnig valdir og urðu fyrir valinu þau Grétar Rafn Steinsson, ÍA, og Dóra Stefánsdóttir úr Val.

Háttvísiverðlaunin komu í hlut Breiðabliks í kvennaflokki og Fylkis í karlaflokki auk þess sem Margrét Ákadóttir, Breiðabliki, var valin prúðasti leikmaður efstu deildar kvenna og Róbert Magnússon, FH, í karlaflokki.

Kristinn Jakobsson, KR, var valinn besti dómarinn. Þá voru tilkynnt lið ársins í karla- og kvennaflokki, en þau voru valin af félagsmönnum í Samtökum íþróttafréttamanna.

Olga tók á móti öðrum verðlaunum þegar henni var afhentur gullskórinn fyrir að vera markahæst í efstu deild kvenna en hún skoraði alls 28 mörk í deildinni sl. sumar. Gullskórinn í karlaflokki kom í hlut Hjartar Hjartarsonar Skagamanns sem skoraði 15 mörk.

mbl.is