Sigurður Bjarnason: Allt of mörg tæknileg mistök

Sigurður Bjarnason reynir að brjótast fram hjá spænsku vörninni.
Sigurður Bjarnason reynir að brjótast fram hjá spænsku vörninni. mbl.is/RAX

"Það var gríðarlega svekkjandi að ná ekki að komast í undanúrslitin en það fór of mikið úrskeiðis í okkar leik til að það gæti orðið. Við unnum ekki vinnuna nægilega vel í vörninni og skyttur Spánverjanna fengu að skjóta nánast óáreittar á markið. Við þurftum að gera breytingar á vörninni, sem er ekki okkur í hag. Þá gerðum við okkur seka um allt of mörg tæknileg mistök og það má einfaldlega ekki gegn jafnsterkum mótherjum og Spánverjar eru," sagði Sigurður Bjarnason við Morgunblaðið en hann var, eins og allir leikmenn íslenska liðsins, niðurbrotinn í leikslok.

En þrátt fyrir að við lékjum ekki vel vorum við lengi vel inni í leiknum og skorti í raun bara herslumuninn og meiri einbeitingu til að við næðum yfirhendinni í leiknum. Við fengum trekk í trekk tækifæri til að komast yfir og ef við hefðum náð því er ég viss um að Spánverjarnir hefðu brotnað. Við fórum afar illa að ráði okkar þegar við vorum manni fleiri og í raun gerðist það sama og í leiknum við Þjóðverja. Ég get ekki skellt skuldinni á einhverja einstaklinga í liðinu heldur erum við í þessu saman og stöndum saman allir sem einn. Við megum alls ekki svekkja okkur um of á þessu heldur er mikilvægt að safna liði og koma ferskir til leiks á laugardaginn. Við getum enn skilið við keppnina með miklum sóma og nú reynir bara á liðið að hrista þennan leik af sér. Við erum ekki fyrsta stórliðið í heiminum sem tapar leik," sagði Sigurður.

Ætlum okkur fimmta sætið

Morgunblaðið náði tali af Einari Erni Jónssyni þar sem hann gekk niðurlútur af velli skömmu eftir að leiknum við Spánverja lauk í Caminha í gærkvöldi.

"Fljótt á litið má kannski helst kenna því um tapið að við gerðum allt of mörg tæknimistök í seinni hálfleik auk þess sem vörnin var hræðilega léleg í fyrri hálfleik. Við hentum boltanum trekk í trekk í hendurnar á Spánverjunum og náðum ekki skotum á markið. Við vorum búnir að vinna okkur í tví- eða þrígang inn í leikinn en misstum þá jafnharðan fram úr með óyfirveguðum og óöguðum leik. Og það er kannski sárast eftir leikinn að hugsa til þess að við klikkuðum á þeim hlutum sem maður lærir fyrst í handbolta." Einar Örn átti góðan leikkafla í síðari hálfleik og hann gaf íslenska liðinu von þegar hann jafnaði metin með tveimur mörkum úr mjög erfiðum færum. ,,Það vantaði herslumuninn á að við kæmumst yfir og ég er viss um að við hefðum yfirbugað Spánverjana ef okkur hefði tekist að komast yfir í seinni hálfleik. En svona fór þetta og við verðum bara að taka þessu af karlmennsku. Á móti liði eins og Spáni, þegar sæti í undanúrslitum er í húfi á heimsmeistaramóti, er dýrt að gera eins mörg mistök og við gerðum okkur seka um. Það er þó enginn heimsendir hjá okkur og úr því sem komið er tökum við stefnuna á fimmta sætið og það sæti ætlum við okkur." Aðspurður um atvikið undir lok fyrri hálfleiks þegar honum brást bogalistin og skaut framhjá spænska markinu, sem var galopið, sagði Einar: ,,Ég hélt, eins og allir sem á leikinn horfðu, að ég myndi skora. Ég var alveg að detta og kastaði mér fram og henti boltanum en náði ekki að sjá markið. Jafnvægið var farið og þetta var einn af þeim feilum sem við gerðum í leiknum. Það var dýrt að skora ekki því það hefði verið gott að fara inn í leikhléið marki yfir," sagði Einar Örn.

Guðmundur Hilmarsson skrifar frá Caminha

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »