Helena hætt með Val

Helena Ólafsdóttir hefur ákveðið að hætta sem þjálfari Vals í meistaraflokki kvenna í knattspyrnu. Helena tilkynnti Valsstúlkum ákvörðun sína í gærkvöldi. Helena er þjálfari kvennalandsliðsins en hún hefur þjálfað Valsstúlkur síðustu tvö tímabil og gerði liðið að bikarmeisturum í síðasta mánuði. Forráðamenn Vals vildu hafa Helenu áfram en hún ætlar ekki að þjálfa neinn meistaraflokk á næsta tímabili.

Jörundur Áki Sveinsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari kvenna og Breiðabliks, er í viðræðum við Valsmenn um að taka við þjálfun liðsins. Jörundur sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að forráðamenn Vals hefðu haft samband við sig og hann væri að hugsa málið, hvort hann ætti að taka við Valsliðinu.