Enska knattspyrnusambandið kærir leikmenn Arsenal og United

Enska knattspyrnusambandið hefur kært enska úrvalsdeildarliðið Arsenal, sex leikmenn liðsins og tvo leikmenn Manchester United fyrir ýmis agabrot í leik liðanna sem fór fram um síðustu helgi. Geta leikmennirnir átt yfir höfði sér fjársektir og leikbann verði kæran tekin til greina.

Upp úr sauð í lok leiksins eftir að Ruud van Nistelroy, leikmaður United, misnotaði vítaspyrnu. Leikmenn Arsenal gerðu hróp og aðsúg að Nistelroy sem skömmu áður hafði lent í útistöðum við Patrick Viera, fyrirliða Arsenal, sem lauk með því að Viera var rekinn af leikvelli. Héldu leikmenn liðanna deilunum áfram eftir að lokaflautan gall.

Knattspyrnusambandið hefur lagt fram kæru á hendur Viera, Martin Keown, Ashley Cole, Lauren, Ray Parlour og Jens Lehman, leikmenn Arsenal, og á hendur Ryan Giggs og Cristiano Ronaldo, leikmenn United. Þá er lögð fram kæra á hendur Arsenal fyrir að hafa ekki stjórn á leikmönnum sínum.

Listinn yfir kæruatriðin er eftirfarandi:

  • Ashley Cole fyrir ósæmilega framkomu í garð Cristianos Ronaldos eftir að leiknum lauk.
  • Martin Keown fyrir ósæmilega framkomu í garð Ruuds van Nistelrooys eftir vítaspyrnuna og fyrir ofbeldisfulla framkomu með því að berja van Nistelrooy í hnakkann eftir að leiknum lauk.
  • Lauren fyrir ósæmilega hegðun í garð van Nistelrooys eftir að Vieira var vikið af velli og í garð Ryans Giggs eftir að leik lauk. Einnig fyrir ofbeldisfulla framkomu með því að sparka í átt til Quintons Fortunes leikmanns United, eftir að vítaspyrna var dæmd á Arsenal og hrinda van Nistelrooy eftir að leiknum lauk.
  • Jens Lehmann fyrir ósæmilega framkomu í garð Steve Bennetts dómara eftir að hann vék Vieira af velli og fyrir að reyna að veitast að van Nistelrooy.
  • Ray Parlour fyrir ósæmilega framkomu í garð van Nistelrooys eftir lok leiksins og fyrir ofbeldisfulla framkomu með því að grípa í Gary Neville, leikmanna United, skömmu síðar.
  • Patrick Vieira fyrir ósæmilega hegðun með því að fara ekki strax af leikvelli eftir að hafa fengið rautt spjald, reyna að veitast að van Nistelrooy og senda Neale Barry aðstoðardómara tóninn.
  • Ryan Giggs fyrir ósæmilega hegðun í garð Laurens eftir leikinn.
  • Cristiano Ronaldo fyrir ósæmilega hegðun í garð Martins Keowns eftir leikinn.

Þá fékk Phil Neville, leikmaður United, viðvörun fyrir að lenda í útistöðum við Lauren eftir að Viera var vísað af velli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert