Átta hafnfirskir íþróttamenn styrktir

Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, afhenti í dag fimm íþróttafélögum styrk vegna  átta efnilegra  hafnfirskra  íþróttamanna, sem eiga möguleika á að vinna sér rétt til þátttöku í næstu Ólympíuleikum.  Með þessu er bæjarfélagið að koma til móts við afreksmannastefnu íþróttahreyfingarinnar með sambærilegum hætti og fyrir síðustu Ólympíuleika.

Eftirtalin íþróttafélög fengu styrk: FH, frjálsar íþróttir, 200.000 þúsund krónur. Þytur, siglingar, 200.000 kr. SH, sund 600.000 krónur, Björk, fimleikar og taekvondo, 400.000 krónur og BH, tennis 200.000 krónur.

Þeir sem hlutu styrkina eru Þórey Edda Elísdóttir, FH - frjálsíþróttir, Hafsteinn Æ. Geirsson, Þytur - siglingar, Heiðar I. Marinósson, SH - sund, Lára Hrund Bjargardóttir, SH - sund, Anja Ríkey Jakobsdóttir SH - sund, Björn Þorleifsson, Björk - Taekvondo, Tanja B. Jónsdóttir, Björk- fimleikar og Andri Jónsson, BH - tennis. Með styrkveitingunni skuldbinda viðkomandi íþróttamenn sig til þess að kynna sína íþróttagrein og Ólympíuhugsjónina meðal hafnfirskra barna og unglinga í grunnskólum bæjarins og á íþróttanámskeiðum annarra íþróttafélaga og bæjarins endurgjaldslaust.

Jafnframt hefur Hafnarfjarðarbær ákveðið að sérstaklega verði veittur styrkur til Handknattleikssambandi Íslands vegna leikmanna úr hafnfirskum íþróttafélögum sem valdir verða til þátttöku á ólympíuleikunum árið 2004 eins og áður hefur verið gert vegna stórmóta.

mbl.is