Íslenskur siglingamaður keppir á Ólympíuleikunum

Hafsteinn Ægir Geirsson keppir í siglingum á Ól í Aþenu …
Hafsteinn Ægir Geirsson keppir í siglingum á Ól í Aþenu í sumar. Myndin var tekin á Smáþjóðaleikunum á Möltu í fyrra þegar Hafsteinn var að búa sig undir keppni. mbl.is / Brynjar Gauti

Hafsteini Ægi Geirssyni hefur verið boðin þátttaka á Ólympíuleikunum í Aþenu sem hefjast 13. ágúst en hann mun keppa í siglingum í Laser-flokki. Þetta verður í fjórða skipti sem Ísland mun hafa keppanda í siglingum á Ólympíuleikum.

Hafsteinn var einnig á meðal keppenda í siglingum á Ólympíuleikunum í Sydney fyrir fjórum árum. Hafsteinn hefur sl. fjögur ár stefnt markvisst að þátttöku í leikunum og á HM sem fram fór í Tyrklandi í maí var hann aðeins tveimur sætum frá því að tryggja sér Ólympíusæti. Stjórn Alþjóða siglingasambandsins ákvað síðan á fundi sínum í byrjun júní að fara þess á leit við Alþjóða Ólympíunefndina að fá að fjölga sætum í Laser-flokki á leikunum og bauð í framhaldi af því fjórum siglingamönnum þ.á m. Hafsteini Ægi að bætast við í keppni á Laser-bátum og verða því keppendur í þessum flokki alls 44. Hafsteinn hefur á sl. fjórum árum náð athyglisverðum árangri í mjög harðri keppni í þessum flokki siglinga. Hann hefur tekið þátt í fjölmörgum mótum og lenti m.a. í þriðja sæti á Smáþjóðaleikunum á Möltu sl. sumar, hann hafnaði í 19. sæti á sterku alþjóðlegu móti í Hourtin í Frakklandi í fyrra og í vor náði hann 8. sæti í sínum flokki á Evrópubikarmóti í Hyeres í Frakklandi. Hafsteinn mun nú halda æfingum áfram fram að leikunum og í júlí tekur hann þátt í Evrópumótinu sem fram fer í Warnemunde í Þýskalandi 16. til 24. júlí.
mbl.is