„Draumi líkast"

Þórey Edda í stangarstökkskeppninni í gærkvöldi.
Þórey Edda í stangarstökkskeppninni í gærkvöldi. mbl.is/Golli

Þórey Edda Elísdóttir batt endahnútinn á þátttöku Íslendinga á Ólympíuleikunum í Aþenu í gærkvöld með stórkostlegum hætti þegar hún hafnaði í fimmta sæti í úrslitakeppni stangarstökksins. Þórey stökk 4,55 metra og aðra Ólympíuleika í röð kom það í hlut frjálsíþróttakonu að toppa árangur Íslands á leikunum en Vala Flosadóttir vann á eftirminnilegan hátt til bronsverðlauna á Ólympíuleikunum í Sydney fyrir fjórum árum.

Árangur Þóreyjar Eddu í gærkvöld var glæsilegur en hún var lengi vel í baráttunni um verðlaun í keppninni en stökk hennar í gær hefði dugað henni til silfurverðlauna í Sydney. Þetta er einn besti árangur íslensks íþróttamanns í einstaklingsíþrótt og segja má með sanni að Þórey Edda hafi haldið merki Íslands á lofti á Ólympíuleikunum sem og Rúnar Alexandersson fimleikamaður sem hreppti sjöunda sætið í úrslitum á bogahesti.

Þórey Edda fór yfir 4,20 metra í fyrstu tilraun en hún setti mikla pressu á sjálfa sig þegar hún felldi í tvígang næstu hæð, 4,40 metra. Henni tókst að komast yfir í þriðju tilraun og mátti vel merkja mikinn létti á andliti hennar þegar hún lenti á dýnunni. Ráin var því næst hækkuð í 4,55 metra. Yfir þá hæð tókst henni að komast í annarri tilraun og með því var hún komin í baráttu um verðlaunasæti ásamt Rússunum frábæru, Svetlönu Feofanovu og Jelenu Isinbajeva og pólsku stúlkunum Moniku Pyrek og Önnu Rogowsku. Ráin var hækkuð í 4,65 metra en Íslandsmet Þóreyjar sem hún setti í júní er 4,60. Þórey felldi illa í fyrstu tilraun en naumlega í annarri. Hún ákvað í kjölfarið að láta hækka í 4,70 metra enda hafði hún engu að tapa þar sem Pyrek hafði tekist að fara yfir 4,55 metra í fyrstu tilraun og þær Feofanova, Isinbayeva og Rogowska yfir 4,65. Tilraun Þóreyjar við 4,70 metra var heiðarleg en dugði ekki því hún felldi.

"Ég er himinlifandi með þennan árangur og þetta er draumi líkast. Ég sagði fyrir leikana að ég stefndi á að verða í hópi átta efstu og ég yrði yfir mig ánægð ef ég stykki hærra en 4,50 metra. Þetta gekk eftir og gott betur því ég náði fimmta sætinu sem er ég mjög stolt af," sagði Þórey Edda við Morgunblaðið eftir stangarstökkskeppnina í Aþenu í gærkvöldi. "Það var yndisleg tilfinning þegar ég fór yfir 4,55. Með því var ég komin í baráttu um bronsið. Ég lagði allt undir eftir að mér mistókst að fara yfir 4,65 metrana. Það skipti mig ekki máli úr því sem komið var hvort ég endaði í fjórða eða fimmta sæti."

Varst þú ekki farin að finna smá lykt af bronsinu og langaði þig ekki í það?

"Auðvitað langaði mig í það og ég ætlaði mér í þá baráttu þegar ég fór yfir 4,55. Mér tókst það og ég get ekki verið annað en sátt." Þórey sagðist aldrei hafa misst trúna á sjálfa sig þó svo að henni hafi hlekkst tvisvar á þegar hæðin á stönginni var 4,40 metrar. "Það kom ekki til greina í mínum huga að falla út á þessari hæð. Ég stappaði í mig stálinu og ég ætlaði mér yfir. Ég vissi að mér tækist það. Það var óskaplegur léttir að fara yfir 4,55 metrana því ég hefði verið hundóánægð út í sjálfan mig að skilja við Ólympíuleikana með stökki upp á 4,40 metra."

Hvað með tilraunir þínar við 4,65 og síðan 4,70. Áttir þú ekki möguleika á að fara yfir þá hæðir?

"Ég ætlaði mér svo sannarlega yfir 4,65 enda veit ég sjálf að ég get komist yfir þá hæð. Hausinn var aðeins að vinna á móti mér og þreytan var aðeins farin að segja til sín."

Fannst þú fyrir stuðningi að heiman?

"Það er engin spurning. Ég fann fyrir ótrúlega miklum stuðningi að heiman. Ég fékk margar kveðjur eftir undankeppnina þar sem fólk var að hvetja mig til dáða. Auðvitað hjálpar þetta manni. Þegar ég stóð frammifyrir því að þurfa að komast yfir í þriðju tilraun þá hugsaði ég um allan stuðninginn að heiman."

Getur þú toppað þennan árangur sem þú náðir hér á Ólympíuleikunum?

"Ég veit að ég get bætt árangur minn hvað hæðina varðar. Hitt verður svo bara að koma í ljós hvort ég geti bætt mig um sæti á einhverju stórmótanna. Ef líkaminn verður í lagi getur vel verið að ég taki þátt í Ólympíuleikunum í Peking og hver veit hvað gerist þar."

Þórey Edda og stöllur hennar í stangarstökkskeppninni urðu vitni að æðislegri baráttu Feofanovu og Isinbaievu um Ólympíugullið og það fór svo að Isinbayeva hafði betur, stökk 4,91 metra og bætti heimsmet sitt um 1 sentímetra. "Þetta var magnað einvígi. Það kom mér svo sem ekkert á óvart að Isinbayeva skildi standa uppi sem sigurvegari þó svo að hún hafði nokkrum sinnum verið komin upp að vegg. Hún vann sig frábærlega út úr vandræðunum og toppaði svo með því að slá heimsmetið," sagði Þórey. Spurð með hvorri hún hafi haldið sagði hún; "Mér var svo sem alveg sama en ég held samt aðeins meira með Feofanovu. Það er svolítill hroki í Isinbayevu en ég fagnaði samt innilega með henni. Umgjörðin var mögnuð og allra augu beindust að stangarstökkinu. Þetta var frábær keppni sem ég á lengi eftir að minnast," sagði Þórey Edda.

Þórey heldur eftir leikana til Leverkusen í Þýskalandi þar sem hún heldur áfram að æfa og hún segist stefna á að keppa á fjórum mótum til viðbótar í sumar og enda á Grand Prix móti í Mónakó í september.

Guðmundur Hilmarsson skrifar frá Aþenu

Þórey Edda fyrir stangarstökkskeppnina í gær.
Þórey Edda fyrir stangarstökkskeppnina í gær. mbl.is/Golli
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »