Barry Bonds setur nýtt met í bandaríska hafnaboltanum

Bonds fagnar með fjölskyldu sinni eftir að metið var fallið.
Bonds fagnar með fjölskyldu sinni eftir að metið var fallið. Reuters

Bandaríski hafnaboltaleikmaðurinn Barry Bonds setti í gær nýtt met er hann hljóp viðstöðulaust í heimahöfn í 756. sinn á ferli sínum. Fyrra metið í „heimhlaupi“ átti Hank Aaron, en hann setti það fyrir 33 árum. Bonds er 43 ára og leikur með liðinu San Francisco Giants. Ásakanir um steranotkun hafa varpað skugga á feril hans undanfarið.

Engu að síður var meti Bonds fagnað gífurlega í San Francisco. Aaron var ekki viðstaddur, en á leikvanginum var sýnt myndband þar sem hann óskaði Bonds til hamingju með að hafa sett þetta eftirsóttasta met bandaríska hafnaboltans.

Þótt margir hafi orðið til að samfagna Bonds hvílir skuggi yfir metinu, svokallað Balco-lyfjamál, sem kom upp árið 2003 þegar í ljós kom, að lyfjaframleiðandinn Balco í San Francisco framleiddi nýjar tegund af steralyfjum, sem ekki greindust í lyfjaprófum sem þá voru notuð. Meðal þeirra sem handteknir voru í tengslum við málið var þjálfari Bonds.

Bonds hefur ítrekað fullyrt að hann hafi engin tengsl haft við Balco og hafi aldrei notað óleyfileg lyf. Hann hefur heldur aldrei fallið á lyfjaprófi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert