Einn verður útnefndur úr glæsilegum hópi

Guðjón Valur Sigurðsson var kjörinn íþróttamaður ársins á síðasta ári.
Guðjón Valur Sigurðsson var kjörinn íþróttamaður ársins á síðasta ári. mbl.is/Arnaldur

Íþróttamaður ársins 2007 verður útnefndur í hófi á Grand Hótel Reykjavík föstudaginn 28. desember. Þetta verður í 52. sinn sem Samtök íþróttafréttamanna, SÍ, standa að kjörinu frá stofnun þeirra árið 1956.

Atkvæði í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna hafa verið talin og liggur ljóst fyrir hvaða tíu íþróttamenn urðu í efstu sætum í kjörinu.

Nöfn þeirra í stafrófsröð eru: Birgir Leifur Hafþórsson, kylfingur úr GKG, Eiður Smári Guðjohnsen, knattspyrnumaður hjá Barcelona, Guðjón Valur Sigurðsson, handknattleiksmaður í Gummersbach, Jón Arnór Stefánsson, körfuknattleiksmaður hjá Lottomatica Roma, Margrét Lára Viðarsdóttir, knattspyrnukona úr Val, Ólafur Stefánsson, handknattleiksmaður hjá Ciudad Real, Ragna Ingólfsdóttir, badmintonkona úr TBR, Ragnheiður Ragnarsdóttir, sundkona úr KR, Snorri Steinn Guðjónsson, handknattleikmaður hjá GOG og Örn Arnarson, sundmaður úr SH.

Sjö þessara íþróttamanna voru á lista tíu efstu í kjörinu á síðasta ári – Birgir Leifur, Eiður Smári, Guðjón Valur, Margrét Lára, Ólafur, Ragna og Örn.

Guðjón Valur Sigurðsson var útnefndur íþróttamaður ársins í fyrra og fékk afhentan nýjan verðlaunagrip en styttan sem fylgdi kjörinu fyrstu 50 árin hefur nú verið látin Þjóðminjasafninu í té til varðveislu.

Vilhjálmur Einarsson þrístökkvari hefur oftast verið kjörinn íþróttmaður ársins, eða fimm sinnum, árin 1956, 1957, 1958, 1960 og 1961. Einar spjótkastari og sonur Vilhjálms hefur hreppt hnossið þrisvar sinnum, svo og Hreinn Halldórsson kúluvarpari og Örn Arnarson sundmaður.

Atkvæðagreiðslan leynileg

29 félagsmenn eru í Samtökum íþróttafréttamanna, hafa aldrei verið fleiri, og nýttu allir þeirra atkvæðisrétt sinn í kjörinu að þessu sinni. Atkvæðagreiðslan er leynileg og fer þannig fram að hver félagsmaður SÍ setur saman lista með nöfnum tíu íþróttamanna sem honum þykir hafa skarað fram úr á árinu. Efsti íþróttamaður á hverjum lista fær 20 stig, sá sem er í öðru sæti 15 stig, þriðja sætið gefur 10 stig, fjórða sætið 8 o.s.frv., eins og getið er nánar um í reglugerð SÍ um kjörið sem er að finna á heimasíðu SÍ: www.sportpress.is. Þar er einnig að finna lista yfir þá 10 hæstu í kjöri hvers árs frá upphafi og ýmsan annan fróðleik um kjörið.

Í hófinu, sem haldið verður á Grand Hótel Reykjavík 28. desember, verða ofangreindir tíu íþróttamenn heiðraðir með bókagjöf en allir fá þeir ,,Hetjurnar okkar“ bók sem fjallar um íþróttamenn ársins frá upphafi sem Samtök Íþróttafréttamanna gáfu út fyrir skömmu en höfundur hennar er Hallgrímur Indriðason. Íþróttamennirnir í þremur efstu sætunum fá jafnframt eignarbikara og flugmiða frá Icelandair og íþróttamaður ársins peningagjöf að upphæð 500.000 krónur frá Glitni en Icelandair og Glitnir eru helstu styrkaraðilar Samtaka Íþróttafréttamanna.

Kjörinu verður lýst klukkan 19.35 á Grand Hótel og verður það í sameiginlegri beinni útsendingu hjá RÚV og Sýn.

Áður en kjöri íþróttamanns ársins verður lýst, mun ÍSÍ afhenda viðurkenningar til þeirra íþróttakarla og -kvenna hjá sérsamböndum sínum sem þótt hafa skara fram úr á árinu 2007. Þetta verður í 13. sinn sem Samtök íþróttafréttamanna og ÍSÍ standa að sameiginlegri hátíð sem nær hápunkti þegar Íþróttamaður ársins 2007 verður útnefndur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert