Ísland sendir fimm íþróttamenn til keppni á Ólympíumóti fatlaðra sem fram fer í september í höfðuborg Kína, Peking. Þar af eru tveir sundmenn og tveir frjálsíþróttamenn, en einnig kraftlyftingamaðurinn Þorsteinn Magnús Sölvason, eða Steini sterki eins og hann er kallaður, sem keppir í bekkpressu.
„Ég er alveg rosalega spenntur. Þetta eru mínir fyrstu leikar og alveg meiriháttar tækifæri fyrir mig. Undirbúningurinn hefur enda verið mikill undanfarna mánuði og gengið vel,“ sagði kraftlyftingakappinn Þorsteinn Magnús Sölvason úr ÍFR sem heldur ásamt fjórum öðrum íslenskum keppendum til Peking í september til að keppa á Ólympíumóti fatlaðra.
„Ég hef keppt bæði í Frakklandi á heimsbikarmóti og í Grikklandi á Evrópumóti og bæði mótin hafa verið virkilega skemmtileg en þetta mót er klárlega mitt stærsta til þessa. Það er náttúrlega mikið ferðalag í kringum þetta en það er bara gaman,“ sagði Þorsteinn Magnús.
Ég er sjálfur varla búinn að átta mig á þessu og það gerist kannski
ekki fyrr en maður verður kominn upp í Leifsstöð,“ bætti hann við.