„Sköpunarkraftur af öðrum heimi"

Ólafur Stefánsson, sem hér brýst framhjá Ruben Garabaya, er einn ...
Ólafur Stefánsson, sem hér brýst framhjá Ruben Garabaya, er einn besti handboltamaður sögunnar að mati Dana. AP

Allir helstu norrænu netfréttamiðlarnir hafa fjallað um sigur Íslands á Spánverjum í dag og þykir greinilega talsvert til koma. Á vef danska handboltasambandsins segir, að Ólafur Stefánsson, sem sé einn mesti handboltasnillingur sögunnar, hafi leitt íslenska liðið í úrslitaleik ólympíuleikanna og sýnt sköpunarkraft sem ekki sé þessa heims.

„Við getum aðeins hneigt okkur og þakkað fyrir frábæra handboltaupplifun," segir á vefnum.

Danskir fjölmiðlar benda margir á, að Snorri Steinn Guðjónsson, markahæsti leikmaður handboltakeppninnar í Peking, sé leikmaður danska liðsins GOG. Politiken nefnir einnig Ólaf Stefánsson, sem það segir hafa verið í fremstu röð leikmanna í heiminum í heilan mannsaldur.

Sænska blaðið Expressen segir, að Íslendingar hafi verið mun betri en Spánverjar í dag. Haft er eftir Magnus Grahn, handboltasérfræðingi Sænska sjónvarpsins, að Íslendingar séu stálmenn og sannir víkingar. Þeir eigi alveg möguleika gegn Frökkum, sem séu þó sennilega með besta liðið í keppninni.

Í mörgum miðlunum er þess getið, að Íslendingar hafi aðeins unnið þrenn verðlaun á ólympíuleikum til þessa og eru verðlaunahafarnir oftast nefndir til sögunnar, þau Vilhjálmur Einarsson, Bjarni Friðriksson og Vala Flosadóttir. 

Politiken

Danska handknattleikssambandið

Dagens Nyheter

Aftonbladet

Expressen

NRK

Portalen í Færeyjum

Íslenskir áhorfendur í Peking á leik Íslands og Spánar.
Íslenskir áhorfendur í Peking á leik Íslands og Spánar. mbl.is/Brynjar Gauti
mbl.is

Bloggað um fréttina