Lars Henriksen ráðinn þjálfari Þórshamars

Lars Henriksen nýráðinn þjálfari Þórshamars.
Lars Henriksen nýráðinn þjálfari Þórshamars. mbl.is

Karatefélagið Þórshamar hefur ráðið til sín danska þjálfarann Lars Henriksen, 4. dan, og mun hann sjá um þjálfun bæði unglinga og fullorðinsflokka auk keppnisliðs Þórshamars á komandi misseri.  Lars heimsótti Þórshamar í tvær vikur í september 2008 og vakti mikla lukku meðal félagsmanna.

Lars hefur verið í fremstu röð í Danmörku undanfarin ár í báðum keppnisgreinum karate, bæði kata og kumite, en það er óvenjulegt að keppnisfólk í karate keppi jöfnum höndum í báðum greinum.

Hann varð Danmerkurmeistari í kata á síðasta ári, varð í öðru sæti í sínum þyngdarflokki í kumite á sama móti og er nýkominn frá Japan þar sem hann keppti fyrir hönd Dana í kata á nýafstöðnu heimsmeistaramóti í karate.

Það vekur athygli að á sama tíma og mörg íþróttafélög eru að senda heim erlenda leikmenn og þjálfara þá lætur Karatefélagið Þórshamar þann mótbyr sem ríkir í efnahagslífinu um þessar mundir ekki á sig fá. Öll æfingagjöld verða óbreytt hjá félaginu þrátt fyrir að æfingum verði fjölgað og starfsemin aukin.

„Það er gríðarleg lyftistöng fyrir Þórshamar að fá Lars til liðs við okkur.  Við höfum mikla trú á að aðsókn muni halda áfram að aukast hjá okkur þrátt fyrir allt krepputal enda er karate skemmtileg líkamsrækt og kjörin leið til að fá útrás í því ástandi sem nú ríkir,“ segir Jón Ingi Þorvaldsson, formaður félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert