Íslandsmet hjá Hrafnhildi

Hrafnhildur Lúthersdóttir.
Hrafnhildur Lúthersdóttir. mbl.is

Hrafnhildur Lúthersdóttir, sundkona úr Sundfélagi Hafnarfjarðar (SH) setti nú rétt í þessu nýtt Íslandsmet í 100 metra bringusundi kvenna þegar hún synti á tímanum 1:10,19 mín. á Íslandsmótinu í 50 metra laug sem fram fer í Laugardalslaug.

Fyrra Íslandsmet átti Erla Dögg Haraldsdóttir, ÍRB sem hún setti í júní í fyrra. Synti hún þá á tímanum 1:10,66 mín.

Er þetta fyrsta Íslandsmet Hrafnhildar í 50 metra laug í fullorðinsflokki og tími Hrafnhildar fleytir henni ennfremur inn á heimsmeistaramótið sem fram fer í Róm í júlí á þessu ári. Er Hrafnhildur þriðji Íslendingurinn til að ná lágmarki inn á HM, en hinir eru Ragnheiður Ragnarsdóttir úr KR í 100 metra skriðsundi og Jakob Jóhann Sveinsson úr Ægi í 100 metra bringusundi.

„Ég var búin að æfa vel fyrir þetta mót og markmiðið var að ná lágmarkinu inn á HM í þessari grein. Til þess að ná því þurfti ég að slá Íslandsmetið í leiðinni. Ég pældi samt ekkert í Íslandsmetinu almennilega fyrr en núna eftir sundið. Ég er alveg í skýjunum, en er ennþá bara að melta þetta,“  sagði Hrafnhildur við Mbl við bakkann á Laugardalslauginni.

mbl.is

Bloggað um fréttina