Mikil spenna fyrir úrslitaleik SA og Bjarnarins

Björninn og SA hafa háð fjóra hörkuleiki og sá fimmti …
Björninn og SA hafa háð fjóra hörkuleiki og sá fimmti er í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Mikil spenna er fyrir lokaleik Íslandsmótsins í íshokkí karla í kvöld þegar SA og Björninn mætast í síðasta úrslitaleiknum í Skautahöllinni á Akureyri. Hann hefst kl. 19.00.

Staðan í einvíginu er 2:2 og Íslandsbikarinn fer á loft í leikslok. Lið Bjarnarins hefur aldrei hreppt hann og á því kost á að hampa honum í fyrsta skipti.

Þeir sem ekki komast í Skautahöllina hafa nokkrar leiðir um að velja til að fylgjast með viðureign liðanna.

Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á akureyrsku sjónvarpsstöðinni N4 og þar hefst útsending kl. 18.30. N4 næst á rás 15 eða 29 á Digital Ísland.

Leikurinn er einnig beint á netinu, www.n4.is og þá er lýsing á heimasíðu Íshokkísambands Íslands, www.ihi.is.

Hér á mbl.is verður að vanda bein textalýsing frá leiknum en mikill fjöldi fylgdist með gangi mála í fjórðu viðureign liðanna í gegnum ítarlega lýsingu mbl.is.

mbl.is