SA endurheimti Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí

Hart barist í leiknum í kvöld.
Hart barist í leiknum í kvöld. mbl.is/Þórir

Oddaleikur Skautafélags Akureyrar og Bjarnarins um Íslandsmeistaratitilinn i íshokkí karla hófst á Akureyri klukkan 19. SA vann stórsigur 6:2 þrátt fyrir Björninn kæmist í 1:0.

SA sigraði 3:2 í úrslitarimmunni eftir að hafa lent 0:1 og 1:2 undir.  Akureyringar endurheimtu þar með titilinn úr höndum SR sem vann í fyrra.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

60. mín. LEIK LOKIÐ. SA er Íslandsmeistari eftir 6:2 sigur. Fögnuðurinn er ósvikinn. Bjarnarmenn sína mikla íþróttamennsku og þakka stuðningsmönnum sínum sem kyrja nafn liðs síns. Liðið Akureyringa var mun betra í þessum leik og er vel að titlinum komið.

57. mín. Staðan er 6:2. Nú er einn Björninn sendur í boxið og SA skorar um hæl. Ingvar Þór Jónsson skorar glæsimark og klárar leikinn. Það virðist fara eins fyrir öllum björnum sem sjást hér norðan heiða.

55. mín. Staðan er 5:2. Bæði lið eru loks fullskipuð. Björninn hefur fimm mínútur til að jafna leikinn. 

53. mín. Staðan er 5:2. SA missir mann af velli og einn Björninn fer sömu leið skömmu síðar.

50. mín. Staðan er 5:2. Stefán Hrafnsson spólar sig í gegn og skorar fyrir SA. 5:2. Hinir rauðklæddu Akureyringar eru nú tíu mínútum frá Íslandsmeistaratitlinum.

50. mín. Staðan er 4:2. Nú er Bjarnarmaður sendur í boxið og annar strax í kjölfarið. Björninn verður að þrauka tveimur færri næstu tvær mínúturnar.

47. mín. Enn fer maður frá SA í boxið. Björninn pressar stíft og klúðrar dauðafæri. Eru heimamenn að fara á taugum?

46. mín. Staðan er 4:2. Sigurður Sveinn Sigurðsson er sendur í refsiboxið og Björninn nýtir sér það um leið. Birgir Jakob skorar aftur og nú er hlaupin spenna í leikinn á ný. Björninn hefur 14 mínútur til stefnu.

44. mín. Staðan er 4:1. Björninn berst nú fyrir lífi sínu og tvö góð skot frá gestunum skjóta heimamönnum skelk í bringu.

42. mín. Staðan er 4:1. Björninn tók út refsingu í byrjun lokaleikhlutans en SA náði lítið að ógna upp við mark gestanna.

40. mín. Staðan er 4:1. Öðrum leikhluta er lokið. Miðað við gang leiksins þá bendir flest til þess að SA endurheimti titilinn. Björninn hefur þó síðasta leikhlutann til að sýna klærnar.

39. mín. Staðan er 4:1. Útlitið er orðið dökkt hjá Birninum. Stefán Hrafnsson smellti inn enn einu markinu fyrir SA og staðan er orðin 4:1. Björninn verður að fara að taka áhættu ef þeir ætla sér titilinn.

35. mín. Staðan er 3:1. Enn er SA að þjarma að Birninum. Það er engu líkara en Björninn sé alveg sleginn út af laginu. Leikurinn fer nú bara fram á sóknarsvæði SA.

32. mín. Staðan er 3:1 fyrir SA. Manni færri kemst SA í gott færi en Snorri ver. Örskömmu síðar brýst Andri Freyr Sverrisson upp að marki Bjarnarins og skorar. Staðan er 3:1 og þakið ætlar af Skautahöllinni hér á Akureyri.

30. mín. Staðan er 2:1. Eitthvað verður undan að láta og Gunnar Darri Sigurðsson skorar fyrir SA eftir mikinn darraðardans. SA spilar nú manni færri í þriðja skiptið í leiknum.

29. mín. Staðan er 1:1. Leikurinn er opinn í báða enda. SA eru mun meira með pökkinn og ætti nú að vera búið að skora 2-3 mörk í leikhlutanum. Björninn kemst svo í stórhættuleg upphlaup inn á milli.

25. mín: Staðan er 1:1. Leikurinn er nú bráðfjörugur. Pökkurinn hefur tvívegis dansað fyrir framan mark Bjarnarins.

21. mín. Staðan er 1:1.  Bæði lið byrja annan leikhluta af krafti. SA fékk gott færi og strax á eftir komst Björninn í gott upphlaup en Ómar í marki SA varði.

20. mín. Staðan er 1:1. Fyrsta leikhluta er lokið og hefur hann verið afar spennandi. SA hefur sótt mun meira en lítið hefur gengið upp við markið. Hinn kornungi Snorri Sigurbergsson í Bjarnarbúrinu hefur haft nóg að gera og er hann búinn að verja tólf skot.

17. mín. Staðan er 1:1. SA spilar nú einum færri eftir að hafa verið í látlausri sókn.

13. mín. Staðan er 1:1. SA jafnar. Jóhann Már Leifsson leikur á Snorra Sigurbergsson í Bjarnarbúrinu og púttar örugglega inn.

6. mín. Staðan er 0:1. SA rembist eins og rjúpan við staurinn og reynir að jafna. Skotunum rignir á mark Bjarnarins.

3. mín. Staðan er 0:1. Björninn byrjar eins og í flestum hinum leikjanna. Þeir skora fyrsta markið. Mjög sakleysislegt skot Birgirs Jakobs Hansen ratar einhvern veginn inn. Áhorfendur á bandi Bjarnarins ærast af fögnuði.

3. mín. Staðan er 0:0. Björninn spilar einum fleiri.

Úrslitaleikurinn milli SA og Bjarnarins hefst nú kl 19 á Akureyri. Mbl.is er á staðnum í Skautahöllinni og er hún að fyllast þótt enn sé nokkuð í leik. Áhangendur Bjarnarins eru fjölmargir enda óþarfi að missa af því ef Björninn vinnur sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í mfl. karla. Hið gamalreynda lið SA ætlar að sjálfsögðu ekki að láta það gerast og við getum lofað hörkuleik.

mbl.is/Þórir Tryggvason
mbl.is/Þórir Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert