Snorri: Okkur tókst að standa í þeim

Snorri Sigurbjörnsson var valinn maður leiksins gegn Eistum.
Snorri Sigurbjörnsson var valinn maður leiksins gegn Eistum. mbl.is/Kristján Maack

Snorri Sigurbjörnsson var valinn maður leiksins í íslenska liðinu sem tapaði 1:6 fyrir Eistum á HM í íshokkí í kvöld.

Íslendingar geta ágætlega við unað því Eistland hafði unnið fyrstu þrjá leiki sína með 14, 15 og 17 marka mun. „Já þetta var svo sem ágætt og ég er sáttur við okkar leik fyrir utan tvö mörk sem við gáfum snemma í leiknum. Við töpuðum 1:16 fyrir þeim í fyrra en 1:6 núna þannig að þetta er í rétta átt hjá okkur. Ef við höldum svona áfram þá munum við vinna þá eftir nokkur ár,“ sagði Snorri í samtali við mbl.is í kvöld.

Hann sagði stemninguna í hópnum hafa verið góða eftir frábæran sigur á Kína í gærkvöldi. „Við vorum tilbúnir í leikinn enda vorum við að mæta liði sem er taplaust í keppninni. Leikurinn var jafnari en ég bjóst við og líklega reiknuðu margir með að Eistar myndu vinna okkur stærra en okkur tókst að standa í þeim. Við erum með ungt lið og það verður gaman að sjá hvað gerist á næstum árum. Við eigum vonandi eftir að berjast um að fara upp í 1. deild,“ sagði Snorri ennfremur.

mbl.is