Tap gegn Eistum en ágæt frammistaða

Robin Hedström jafnaði 1:1 fyrir Ísland gegn Eistlandi.
Robin Hedström jafnaði 1:1 fyrir Ísland gegn Eistlandi. mbl.is/Kristján Maack

Eistland og Ísland mættust á HM í íshokkí í Narva í Eistlandi í dag. Eistland sigraði 6:1 en Robin Hedström skoraði mark Íslands á 8. mínútu og jafnaði þá leikinn. Það var fyrsta markið sem Eistar fengu á sig síðan í 1. umferð. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Mark Íslands: Robin Hedström.

Stoðsending: Róbert Pálsson.

Maður leiksins hjá Íslandi: Snorri Sigurbjörnsson. 

60. mín: LEIK LOKIÐ. Eistar sigruðu örugglega og halda sigurgöngu sinni í mótinu áfram en þeir eiga eftir hreinan úrslitaleik gegn Rúmeníu um það hvor þjóðin fer upp í 1. deild.  Ísland er öruggt með 3. sætið og hefur bætt sig mjög því liðið tapaði 1:16 fyrir Eistum í fyrra.

55. mín: Staðan er 6:1 fyrir Eistland. Birkir Árnason var sendur kælingu og Íslendingar voru því leikmanni færri. Þungri sókn Eista lauk með marki af stuttu færi.

51. mín: Staðan er 5:1 fyrir Eistland. Heimaliðið var að bæta við fimmta marki sínu. Leikurinn hefur verið jafnari en búist var við en munurinn á atvinnumönnum og áhugamönnum er einfaldlega of mikill til þess að Ísland geti stolið sigri.

45. mín: Staðan er 4:1 fyrir Eistland og síðasti leikhlutinn fer rólega af stað. Bæði lið virðast þokkalega sátt við þessa niðurstöðu. Eista bíður úrslitaleikur um að komast upp gegn Rúmeníu á föstudaginn og Íslendinga bíður leikur gegn Ísrael sem menn ætla sér að vinna.

40. mín: Staðan er 4:1 fyrir Eistland að loknum tveimur leikhlutum.  Eistar unnu þennan leikhluta 1:0. Verra gæti það verið. Nú þurfa íslensku leikmennirnir að halda út í síðasta leikhlutanum en í hinum leikjunum hafa Eistar raðað inn mörkum á andstæðinga sína í síðasta leikhlutanum. 

35. mín: Staðan er 4:1 fyrir Eistland. Sókn heimamanna er farin að þyngjast verulega en Ævar Björnsson stendur sig með prýði í marki Íslands.  Baráttuandinn er til staðar hjá íslensku leikmönnunum og þeir ætla ekki að láta valta yfir sig.

28. mín: Staðan er 4:1 fyrir Eistland. Nú syrtir í álinn því Eistar bættu fjórða marki sínu við á 26. mínútu eftir laglega sókn. Íslendingar reyndu að svara því strax og Robin Hedström átti bylmingsskot í slána á marki Eistlands.  Lánið leikur ekki við okkar menn sem mega ekki við því gegn liðið sem eingöngu er skipað atvinnumönnum en íslenska liðið er ekki með einn slíkan.

25. mín: Staðan er 3:1 fyrir Eistland. Íslendingar hafa sótt meira í upphafi annars leikhluta. Egill Þormóðsson fékk gott færi en markvörður Eista varði frá honum. 

20. mín: Staðan er 3:1 fyrir Eistland að loknum fyrsta leikhluta. Íslendingar hafa ekki heppnina með sér. Jónas Breki Magnússon átti þrumuskot af löngu færi sem small í stönginni á marki Eistlands í stöðunni 2:1 þegar tíu sekúndur voru eftir af leikhlutanum. Eistarnir brunuðu upp og skoruðu í staðinn. Auk þess hafa Íslendingar verið fjórum sinnum utan vallar í leikhlutanum en Eistarnir aðeins einu sinni. Eistland vann viðureign liðanna í fyrra 16:1 og því kemur svolítið á óvart hve harða keppni Íslendingar veita þeim á þeirra eigin heimavelli.

15. mín: Staðan er 1:1. Íslendingar eiga í fullu tré við firnasterkt lið Eistlands á þeirra eigin heimavelli. Eistarnir eru vissulega beittari enda hafa Íslendingar þrisvar misst mann af velli í kælingu. 

8. mín: Staðan er 1:1. Heldur var undirritaður svartsýnn því Íslendingar svöruðu að bragði. Robin Hedström skoraði annað mark sitt í keppninni eftir stoðsendingu frá Róberti Pálssyni. Fyrsta markið sem Eistland fær á sig síðan í fyrsta leiknum.

7. mín: Staðan er 1:0. Heimamenn eru komnir yfir en mikill heppnisstimpill var á markinu. Íslendingar voru í stórsókn enda leikmanni fleiri þegar Eistarnir fengu skyndisókn. Ævar markvörðurinn fékk pökkinn en leikmaður Eista komst inn í sendingu hans, gaf fyrir og Eistarnir skoruðu.  Ísland var síst lakari aðilinn á upphafsmínútunum en nú verður róðurinn þungur fyrst Eistar eru komnir á bragðið.

Íslenski landsliðshópurinn syngur þjóðsönginn eftir sigurinn á Kína.
Íslenski landsliðshópurinn syngur þjóðsönginn eftir sigurinn á Kína. mbl.is/Kristján Maack
mbl.is