Higgins sigraði á breska mótinu

John Higgins.
John Higgins.

John Higgins sigraði á breska snooker-mótinu eftir æsispennandi keppni við Mark Williams. Úrslitin réðust í síðasta rammanum sem Higgins sigraði. Keppnin endaði því 10-9.

Higgins var fyrr á þessu ári dæmdur í keppnisbann eftir að grunur vaknaði um að hann hefði tekið þátt í að semja um úrslit í leikjum gegn peningagreiðslu. Þetta er hans fyrsta mót eftir þessa uppákomu sem setti snooker-heiminn á annan enda.

Mark William gekk mun betur í úrslitaleiknum í gær og leiddi 6-2. Þegar staðan var 8-4 töldu flestir ljóst hver myndi sigra. Higgins sýndi hins vegar að hann gefst aldrei upp og saxaði stöðugt á forskotið. Þegar staðan var 9-7 fékk Williams gullið tækifæri til að innbyrða sigur. Hann klikkaði hins vegar á síðustu rauðu kúlunni sem hann þurfti að skjóta niður til að sigra. Hann fékk annað tækifæri síðar í leiknum, en Higgins bjargaði sér fyrir horn með því að leggja snooker fyrir andstæðing sinn.

Síðasti ramminn var æsispennandi og báðir áttu möguleika á að sigra, en það var Higgins sem sýndi að hann er enn einn besti snooker-spilari í heimi.

mbl.is

Bloggað um fréttina