Egill: Verðum að vinna hina leikina til að fá bronsið

Egill Þormóðsson lagði upp fyrsta mark Íslands á HM í Króatíu fyrir Robin Hedström. Mbl.is ræddi við Egil að leiknum loknum gegn Rúmeníu í Zagreb í dag.

Ísland komst í 2:0 gegn sterku liði Rúmeníu en varð að sætta sig við 2:4 tap. Rúmenía skoraði tvívegis með stuttu millibili í öðrum leikhluta og bættu þriðja markinu við í síðasta leikhlutanum. Fjórða markið kom þegar um hálf mínúta var eftir af leiknum en Ísland hafði þá tekið markvörðinn Dennis Hedström af velli og sett útileikmann inn á í staðinn. 

Egill sagði slæma tilfinningu fylgja því að missa niður tveggja marka forskot. Hann var mjög ánægður með leik íslenska liðsins fyrri part leiksins. Honum fannst þreyta gera vart við sig hjá leikmönnum Íslands þegar á leið leikinn og það hafi haft sitt að segja.

Egill sagði Rúmenana hafa verið orðna pirraða í stöðunni 1:0 en fannst þeir hafa risið upp á afturlappirnar eftir að staðan var orðin 2:0.

Framundan eru leikir á móti þremur lakari liðum en Króatía og Rúmenía að mati Egils og allt séu það skyldusigrar fyrir Ísland sem ætlar sér að verja bronsverðlaunin frá því í Eistlandi í fyrra.

Egill Þormóðsson kominn í færi gegn Króatíu í gærkvöldi.
Egill Þormóðsson kominn í færi gegn Króatíu í gærkvöldi. mbl.is/Kristján Maack
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert