Emil: Kannski leið manni of vel

Snillingurinn Emil Alengård lagði upp eitt mark gegn Búlgaríu og …
Snillingurinn Emil Alengård lagði upp eitt mark gegn Búlgaríu og var valinn maður leiksins hjá Íslandi. mbl.is/Kristján Maack

Emil Alengård var valinn besti leikmaður Íslands í leiknum gegn Búlgaríu á HM í Króatíu í dag. Ísland sigraði 3:2 og á því enn möguleika á því að endurtaka leikinn frá því í Eistlandi í fyrra og vinna bronsverðlaun.

Emil var þokkalega sáttur við leikinn en tjáði mbl.is að Ísland ætti að geta unnið stærri sigur á Búlgaríu miðað við styrkleika liðanna. „Við vissum að Búlgaría væri með góða leikmenn þó þeir séu gamlir og farið að hægjast á þeim. Við þurftum því að keyra upp hraðann og reyna að halda hraðanum uppi allan leikinn. Við gerðum það en vorum á löngum köflum ekki nægilega agaðir og ekki nægilega einbeittir,“ sagði Emil við mbl.is að leiknum loknum og bætti því við að sigur væri sigur hvernig svo sem spilamennskan hafi verið.

„Mér leið vel að loknum öðrum leikhluta þegar við vorum komnir 3:0 yfir en kannski leið manni of vel því í þriðja leikhluta fórum við að reyna hluti sem við erum ekki vanir að gera. Því fylgdu mistök sem kostuðu okkur talsvert og Búlgarar náðu að hleypa spennu í leikinn. Leikurinn er 60 mínútur og ef maður spilar vel í 4 mínútur en illa í næstu 2 mínútur þá tapar maður leiknum. Nú þurfum við að einbeita okkur að næsta leik gegn Kína á föstudaginn en ég tel að sá leikur muni ráða úrslitum um það hvor þjóðin fær bronsið,“ sagði Emil Alengård þegar mbl.is ræddi við hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert