„Birkir er með stóra hramma“

Ingólfur Elíasson ásamt Dennis Hedström og fyrirliðanum Ingvari Þór Jónssyni …
Ingólfur Elíasson ásamt Dennis Hedström og fyrirliðanum Ingvari Þór Jónssyni á HM. mbl.is/Kristján Maack

Varnarmaðurinn ungi, Ingólfur Elíasson þreytti frumraun sína með A-landsliðinu á HM í Króatíu. Ingólfur lék ágætlega í mótinu og tókst að skora í síðasta leiknum á móti Írlandi í dag.

„Já það var gaman að komast á blað í sínu fyrsta móti og gaman að skora fyrsta landsliðsmarkið. Við vissum svo sem að þessi síðasti leikur yrði ekki erfiður og aðalmálið var að halda þeim á núllinu,“ sagði Ingólfur þegar mbl.is ræddi við hann þegar 14:0 sigurinn á Írum var í höfn í dag.

„Við ætluðum okkur að gera betur en í fyrra en liðið náði þó bronsverðlaunum aftur. Það er alltaf pláss fyrir bætingu og við vitum hvað við þurfum að gera, sagði Ingólfur og getur ekki neitað því að HM í fullorðinsflokki sé nokkuð frábrugðið HM með unglingalandsliðunum. „Já íshokkíð er í öðrum gæðaflokki hérna. Leikurinn er hraðari og leikmenn eru teknískari og sterkari,“ sagði Ingólfur og kvartar ekki undan því að vera nýliði í landsliðinu en hann og Ólafur Hrafn Björnsson léku sína fyrstu A-landsleiki í ferðinni og fengu viðeigandi busavígslu með tilheyrandi flengingum.

„Þetta er bara skemmtilegt. Það fylgir öllum landsliðum að nýliðarnir bera læknatöskurnar og fleira. Maður verður bara að sætta sig við það,“ sagði Ingólfur og kveinkaði sér ekki undan flengingunum. „Nokkrir þeirra eru með stóra hramma eins og Birkir (Árnason) þannig að þetta er ekki þægilegt en maður náði sér alveg fyrir leikinn.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert