Stúlkurnar í sautjánda sæti

Stúlknalandsliðið: Guðrún Georgsdóttir, Andrea Rós Jónsdóttir, Katrín Myrra Þrastardóttir, Sigríður …
Stúlknalandsliðið: Guðrún Georgsdóttir, Andrea Rós Jónsdóttir, Katrín Myrra Þrastardóttir, Sigríður Hrönn Bergþórsdóttir og Freyja Húnfjörð Jósepsdóttir.

Stúlknalandslið Íslands í fimleikum hafnaði í 17. sæti á Evrópumeistaramótinu í Brussel í Belgíu en undankeppni í yngri aldursflokki fór fram í gær.

Í tilkynningu frá Fimleikasambandi Íslands er haft eftir Þorbjörgu Gísladóttur fararstjóra að mikil ánægja hafi verið með frammistöðu stúlknanna, sérstaklega þar sem þetta sé þeirra fyrsta Evrópumeistaramót en þær eru 14-15 ára gamlar.

Alls taka 36 þjóðir þátt í mótinu og 250 keppendur samtals, en keppendur í yngri hlutanum voru 110 talsins. Af íslensku keppendunum stóð Freyja Húnfjörð Jósepsdóttir sig best og endaði í 51. sæti í heildarkeppninni. Bestu einkunn á einstökum áhöldum fékk Sigríður Hrönn Bergþórsdóttir en hún fékk 12.466 stig í stökki.

Landslið fullorðinna keppa síðan á mótinu í dag.

mbl.is