Ólympíudraumurinn er úti

Draumurinn um að vinna til verðlauna á Ólympíuleikunum í London er úti eftir tap gegn Ungverjum, 34:33, í mögnuðum spennutrylli sem var að ljúka í körfuboltahöllinni í London.

Úrslitin réðust í tvíframlengdum leik. Staðan eftir venjulegan leiktíma var, 27:27. Það var aftur jafnt, 29:29, eftir fyrri framlenginguna en Ungverjar náðu að knýja fram sigur í annarri framlengingunni. Ungverjar fögnuðu gríðarlega þegar úrslitin voru ráðin en Íslendingar voru eðlilega niðurbrotnir.

Undir lok venjulegs leiktíma fengu Íslendingar kjörið tækifæri til að tryggja sér sigur. Ólafur Stefánsson fiskaði vítakast en Fazekas frábær markvörður Ungverja varði vítakast Snorra Steins Guðjónssonar og Ungverjar brunuðu upp og tryggðu sér framengingu með því að jafna metin á lokasekúndunum.

Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur í íslenska liðinu með 8 mörk. Aron Pálmarsson skoraði 7, Alexander Petersson 6, Róbert Gunnarsson 5, Arnór Atlason 4 og Ólafur Stefánsson 3. Björgvin Gústafsson lék fyrri hálfleikinn í markinu en náði sér ekki á strik en Hreiðar Levý Guðmundsson stóð vaktina frábærlega vel eftir að hann kom inná og varði 16 skot.

Viðtöl munu birtast á mbl.is við leikmenn og þjálfara og í Morgunblaðinu á morgun verður leikurinn krufinn til mergjar en Guðmundur Þórður Guðmundsson var að stýra liðinu í sínum síðasta leik.

Ísland 33:34 Ungverjaland opna loka
80. mín. Ungverjaland tapar boltanum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert