Stefnan sett á gullið

Jón Margeir Sverrisson og Kolbrún Alda Stefánsdóttir ætla bæði að …
Jón Margeir Sverrisson og Kolbrún Alda Stefánsdóttir ætla bæði að slá Íslandsmet sín í London. mbl.is/Ómar

„Ég er alveg sallarólegur og vona að ég geri bara mjög góða hluti þarna úti. Ég ætla að reyna að bæta mína bestu tíma og vonandi skilar það sér. Ég er auðvitað spenntur en reyni að halda öllu stressi í lágmarki.“

Þetta segir Jón Margeir Sverrisson, annar af tveimur sundmönnum Íslands sem keppa á Ólympíumóti fatlaðra í London. Jón Margeir stingur sér til sunds í 100 metra baksundi eftir slétta viku en keppir svo í 200 metra skriðsundi og 100 metra bringusundi.

Jón Margeir, sem keppir fyrir Fjölni/Ösp, er til alls líklegur í skriðsundinu. Hann á næstbesta tímann í heiminum á þessu ári í sínum flokki, S14 flokki þroskahamlaðra, og er heimsmethafi í 800 og 1.500 metra skriðsundi en aðeins er keppt í þremur greinum í flokki Jóns Margeirs sem setur markið hátt.

Kolbrún Alda Stefánsdóttir úr Firði/SH er aðeins 15 ára gömul en keppir í 100 metra baksundi, 100 metra bringusundi og 200 metra skriðsundi í London, í S14 flokki þroskahamlaðra.

„Ég er svo sem alveg róleg enn sem komið er,“ sagði Kolbrún á sundlaugarbakkanum í gær. „Ég er best í 200 metra skriðsundi þannig að ég hlakka mest til að keppa í því,“ bætti hún við en Kolbrún er í 15. sæti á heimslista þar.

Þau Jón Margeir taka lokaæfingu sína í dag áður en þau halda til London á morgun með frjálsíþróttafólkinu Helga Sveinssyni og Matthildi Ylfu Þorsteinsdóttur. Sjálf þarf Kolbrún að fresta því að byrja í 10. bekk.

Sjá viðtöl við Jón Margeir og Kolbrúnu Öldu í heild í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert