Kristján sjöundi í Danmörku

Kristján Jónsson stóð sig vel í Danmörku.
Kristján Jónsson stóð sig vel í Danmörku.

Kristján Jónsson hafnaði í sjöunda sæti í -81 kg flokki á hinu árlega Matsumae Cup-júdómóti sem fram fór í Danmörku um helgina.

Alls voru 23 keppendur í flokknum og Kristján mætti eingöngu japönskum andstæðingum úr heimsþekktum júdóháskóla, Tokai University. Hann tapaði fyrstu viðureigninni en vann síðan þrjár næstu, allar á ippon, eða fullnaðarsigri. Kristján tapaði síðan fimmtu viðureign sinni og var þar hársbreidd frá því að keppa um bronsverðlaunin.

Viktor Bjarnason keppti í -73 kg flokki á mótinu, þar sem 21 keppandi tók þátt, og tapaði fyrir Tjeerd Tjeerdsma frá Hollandi. Sá komst í fjögurra manna úrslit og hlaut brons, þannig að Viktor fékk uppreisnarviðureign, en tapaði henni gegn Joonatan Gröndahl frá  Finnlandi, sem endaði í 7. sæti.

mbl.is