Árangur Anítu stóð upp úr á fyrri keppnisdegi

Aníta Hinriksdóttir fagnar glæsilegu Íslandsmetshlaupi sínu í dag sem tryggði …
Aníta Hinriksdóttir fagnar glæsilegu Íslandsmetshlaupi sínu í dag sem tryggði henni sæti á HM. Ljósmynd/Gunnlaugur Júlíusson

Aníta Hinriksdóttir var stjarna fyrri keppnisdags hjá íslenska frjálsíþróttalandsliðinu í 3. deild Evrópukeppni landsliða, en keppt er í Banská Bystrica í Slóvakíu. Aníta vann einu gullverðlaunin, í 800 metra hlaupi, þar sem hún setti glæsilegt Íslandsmet á 2:01,17 mínútum og náði HM-lágmarki.

Ísland fékk silfurverðlaun í fjórum greinum. Óðinn Björn Þorsteinsson fékk silfur í kúluvarpi, Ásdís Hjálmsdóttir í spjótkasti og Hafdís Sigurðardóttir í 100 metra hlaupi. Þá náði boðhlaupssveit Íslands silfri í 4x100 metra boðhlaupi kvenna.

Hafdís vann einnig til bronsverðlauna í 400 metra hlaupi líkt og Arndís Ýr Hafþórsdóttir gerði í 3.000 metra hlaupi.

Öll úrslit dagsins hjá íslenska hópnum má sjá neðst í fréttinni en fylgst var með gangi mála í textalýsingu líkt og gert verður á morgun.

Keppt var í 21 grein af 40 í dag. Ísland etur kappi við Albaníu, Andorra, Armeníu Aserbaídsjan, Bosníu og Hersegóvínu, Makedóníu, Georgíu, Lettland, Lúxemborg, Möltu, Moldóvu, sameinað lið smáþjóða, Slóvakíu og Svartfjallaland.

------------------------------------------------------------

17.53 - Mbl.is þakkar þá fyrir sig héðan úr Banská Brystica eftir viðburðaríkan dag þar sem magnaður árangur Anítu Hinriksdóttur stendur upp úr. Einnig ber að nefna framgöngu Hafdísar Sigurðardóttur sem náði í tvenn silfurverðlaun og ein bronsverðlaun.

17.52 - Æjj, æjj, karlasveitin náði ekki að fylgja konunum eftir. Önnur skiptingin klikkaði og endaði sveitin í síðasta sæti. Svekkjandi lok á annars góðum degi íslenska hópsins.

17.43 - Íslenska kvennasveitin fékk silfur í 4x100 metra boðhlaupinu sem hún lauk á 46,52 sekúndum. Glæsilega gert!

17.30 - Íslenska kvennasveitin varð í 2. sæti í sínum riðli í boðhlaupinu. Nú er að sjá hverju það skilar í heildina. Björg Gunnarsdóttir, Hafdís Sigurðardóttir, María Rún Gunnlaugsdóttir og Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir skipuðu sveitina.

17.20 - Svartfjallaland hefur verið dæmt úr leik í 4x100 metra boðhlaupi kvenna vegna þess að sú sem átti að hlaupa fyrsta sprett var ekki með keppnisnúmer á bakinu. Fyrr má nú vera smámunasemin. Hún hljóp að stúkunni og sótti númerið sitt en þá var það orðið of seint, og hún gekk í kjölfarið snöktandi af velli.

17.15 - Helga Guðný hljóp á 12:22,23 mínútum og varð í 8. sæti af 9 keppendum í hindrunarhlaupinu.

17.12 - Helga Guðný Elíasdóttir er komin í mark í 3.000 metra hindrunarhlaupinu, síðustu einstaklingsgrein dagsins. Við bíðum eftir staðfestum tíma en svo eru boðhlaupin ein eftir.

16.55 - Ingvar Hjartarson stórbætti árangur sinn í 5.000 metra hlaupi og kom í mark á 15:08,26 mínútum. Hann bætti sig um 17 sekúndur eða þar um bil og varð í 4. sæti.

16.34 - Nú fer að líða að lokum fyrri keppnisdags. 5000 metra hlaup karla er í gangi og 3.000 metra hindrunarhlaup kvenna fylgir í kjölfarið. Þá eru aðeins eftir 4x100 metra boðhlaupin. Ég get ekki sagt annað en að árangur íslenska liðsins hafi verið mjög góður í dag.

16.33 - Hreinn Heiðar Jóhannsson varð í 12. sæti af 14 keppendum í hástökki en hann fór yfir 1,90 metra í þriðju tilraun og gerði svo tvívegis ógilt þegar hann reyndi við 1,95 metra.

16.33 - Arndís Ýr Hafþórsdóttir náði bronsverðlaunum í 3.000 metra hlaupi en hún kom í mark á 10:04,75 mínútum, talsvert á eftir fyrstu tveimur. Engu að síður mjög góður árangur hjá Arndísi sem keppir í 5.000 metra hlaupi á morgun.

16.30 - Ásdís Hjálmsdóttir kastaði 53,28 metra í lokakasti sínu og endaði því í 2. sæti eins og búast mátti við fyrir fram. Þetta er þó talsvert langt frá Íslandsmeti Ásdísar, 62,77 metrum. Sigurkast Madöru Palameika frá Lettlandi var upp á 57,07 metra. Ásdís náði í 14 stig fyrir Ísland.

16.25 - Kristinn Torfason stökk lengst 6,96 metra í langstökkinu og endaði í 10. sæti en hann meiddist í upphitun.

16.24 - Ásdís gerði aftur ógilt í 3. tilraun í spjótkastinu og er enn í 2. sæti. Hún á eina tilraun eftir.

16.10 - Annað kast Ásdísar í spjótkastinu var aðeins styttra en það fyrsta, sem var upp á 53,36 metra, og hún ákvað því að gera það ógilt.

16.09 - Ívar Kristinn Jasonarson varð í 9. sæti af 16 keppendum í 400 metra hlaupi á 49,02 sekúndum. Sigurtíminn þar var 47,36 sekúndur en Ívar á best 48,05 sekúndur.

16.05 - Kristinn stökk 6,62 metra í 2. tilraun í langstökkinu. Það skilar aðeins 10. sæti en kappinn á eina tilraun eftir.

16.04 - Hafdís Sigurðardóttir er á fullri ferð í dag en gaf sér tíma í spjall eftir að hafa náð 2. sæti í 100 metra hlaupinu. Viðtal við hana má sjá með því að smella HÉR.

16.03 - Ásdís Hjálmsdóttir er byrjuð að kasta spjótinu og kastaði 53,36 metra í fyrstu tilraun. Helsti keppinautur hennar, Madara Palameika, kastaði 56,12 metra í fyrstu tilraun og gerði svo ógilt.

15.52 - Kristinn Torfason er kominn af stað í langstökkinu en fyrsta stökk þar misheppnaðist. Kristinn á best 7,67 metra.

15.47 - Hafdís Sigurðardóttir átti gott 400 metra hlaup eftir að hafa náð í silfur í 100 metra hlaupi áðan, og varð í 3. sæti. Gott dagsverk hjá henni þó enn sé boðhlaup eftir! Staðfestir tímar eru væntanlegir.

15.33 - Snorri Sigurðsson átti frábært 1.500 metra hlaup og náði sínum besta árangri en hann kom í mark á 3:56,00 mínútum og varð fjórði, 2,67 sekúndum frá verðlaunasæti.

15.21 - Óðinn Björn sótti þriðju verðlaun Íslands en hann varð í 2. sæti í kúluvarpinu með 17,81 metra kasti. Hann náði með því í 13 stig. Sigurkastið var upp á 18,02 metra.

15.11 - Aníta Hinriksdóttir var að hlaupa sig inn á HM í Moskvu! Hún kom í mark á nýju og glæsilegu Íslandsmeti, 2:01,17 mínútum, í 800 metra hlaupi. Enn eitt afrekið hjá þessari mögnuðu hlaupadrottningu.

15.09 - Óðinn stóðst pressuna og kastaði 17,70 metra í þriðju tilraun. Þar með er hann í 2. sæti fyrir lokaumferðina.

15.03 - Aníta Hinriksdóttir er að gera sig klára í 800 metra hlaupið sitt. Fyrri riðillinn hefur lokið sér af og nú er komið að þeim bestu.

15.03 - Það er allt undir í þriðja kastinu hjá Óðni Birni Þorsteinssyni í kúluvarpinu en hann hefur aðeins kastað 16,31 metra og er í 5. sæti. Fjórir efstu eftir 3 tilraunir fá fjórðu tilraun.

14.57 - Myndbandsviðtal við Bjarna Malmquist var að skila sér inn á mbl.is. Smellið hér. Það tekur sinn tíma að hlaða inn myndböndum hér á vellinum en Hafdís Sigurðardóttir skilar sér vonandi einnig inn sem fyrst.

14.55 - Kolbeinn Höður Gunnarsson náði sér vel á strik í 100 metra hlaupi og var afar nærri sínu besta. Þessi 17 ára kappi kom í mark á 10,85 sekúndum og varð í 5. sæti.

14.31 - Hafdís Sigurðardóttir stóð vel undir væntingum og náði 2. sæti í æsispennandi 100 metra hlaupi. Hún náði að kasta sér fram í lokin og hirða 2. sætið á 12,04 sekúndum, aðeins 2/100 úr sekúndu á undan heimakonunni Alexöndru Bezeková, og 3/100 frá 4. sætinu. Sigurtíminn var 11,98 sekúndur. 14 stig af 15 mögulegum til Íslands!

14.26 - Með góðu lokastökki upp á 11,44 metra náði Dóróthea Jóhannesdóttir að færa sig upp í 10. sæti í þrístökki.

14.18 - Kringlukasti kvenna var að ljúka þar sem Rakel Ósk Dýrfjörð Björnsdóttir kastaði lengst 30,56 metra í fyrstu tilraun en gerði svo tvívegis ógilt. Hún hefur best kastað 37,04 metra á ferlinum. Rakel varð í 12. sæti af 14 keppendum.

14.11 - Dóróthea Jóhannesdóttir er komin af stað í þrístökki og hefur lengst stokkið 10,26 metra í 2. tilraun. hún á að geta stokkið rúmum metra lengra. Það styttist svo í að Hafdís Sigurðardóttir hlaupi 100 metra hlaup þar sem fyrstu verðlaun Íslands gætu komið í hús.

14.07 - Bjarni Malmquist Jónsson stóð sig frábærlega í 400 metra grindahlaupi og kom í mark á 55,28 sekúndum. Það er hans besti skráði árangur en Bjarni hefur nú verið meira að hugsa um langstökk síðustu ár. Bjarni vann sinn riðil af miklu öryggi og varð í 7. sæti af 15 keppendum alls. Vídjóviðtal við hann kemur inn á mbl.is innan skamms.

13.48 - Blake varð í 7. sæti í sleggjukastinu en hann kastaði lengst 49,04 metra, sem er tæpum 3 metrum frá hans besta. Sigurkastið var 74,98 metrar en Blake var mjög nærri 5. sætinu.

13.45 - Stefanía Valdimarsdóttir var að koma í mark í 400 metra grindahlaupi á fínum tíma. Stefanía hljóp í sterkari riðlinum af tveimur og kom fimmta í mark á 61,21 sekúndu eftir harða keppni við keppendur í 3. og 4. sæti. Það var mun betri tími en hjá sex keppendum fyrri riðilsins.

13.34 - Sleggjukasti karla var að ljúka en sú grein fer ekki fram á aðalleikvanginum. Blake Jakobsson varð í sjötta sæti eftir því sem næst verður komist en nákvæm úrslit ættu að liggja fyrir innan skamms.

13.20 - Íslensku keppendurnir bera svört sorgarbönd vegna sviplegs fráfalls Ólafs Rafnssonar sem var forseti ÍSÍ en hann lést langt fyrir aldur fram í vikunni.

13.03 - Setningarathöfnin er hafin með tilheyrandi lúðrablæstri. Íslenski fáninn er í öruggum höndum Íslandsmethafans í sleggjukasti, Söndru Pétursdóttur, sem keppir á morgun.

12.59 - Ásdís Hjálmsdóttir er eini Íslendingurinn sem náð hefur lágmarki fyrir HM. Hún mun eiga fullt í fangi með að ná fullu húsi stiga í spjótkastinu í dag því þar er einnig skráð til leiks Madara Palameika frá Lettlandi sem er hærra skrifuð á heimslista. Hún á best 64,51 metra en Íslandsmet Ásdísar er 62,77 metrar.

12.56 - Það verður fróðlegt að fylgjast með Anítu Hinriksdóttur í 800 metra hlaupinu í dag. Íslandsmet hennar er 2:03,15 mínútur en B-lágmarkið fyrir HM í Moskvu er 2:01,50 mín.

12.52 - Bogey er úr leik í stangarstökkinu en hún fór aðeins yfir 2,90 metra sem er langt frá hennar besta árangri, 3,55 metrum. Bogey felldi 2,90 tvívegis og var úr leik eftir tvær tilraunir við 3,10 metra, samkvæmt nýjum reglum um að keppandi sé úr leik við fjórða fall.

12.45 - Keppni er hafin hér þó að formleg setning sé kl. 13 að íslenskum tíma. Bogey Ragnheiður Leósdóttir úr ÍR fer fyrst Íslendinga af stað í stangarstökki.

12.45 - Góðan og blessaðan daginn! Mbl.is heilsar ykkur úr sólinni hér í Banská Bystrica í miðri Slóvakíu. Reyndar eru nokkur ský á lofti og búist við síðdegisskúrum en veður er hlýtt og hæg gola gælir við vanga.

-------------------------------

Úrslit dagsins:

Stangarstökk kvk: Bogey Ragnheiður Leósdóttir stökk yfir 2,90 metra og varð í neðsta sæti sjö keppenda. Hún fékk því 9 stig.

Sleggjukast kk: Blake Jakobsson kastaði 49,04 metra og varð í 7. sæti af 13 keppendum. Hann fékk því 9 stig.

400 m gr.hlaup kvk: Stefanía Valdimarsdóttir hljóp á 61,21 sekúndu og varð í 5. sæti af 12 keppendum. Hún hlaut því 11 stig.

400 m gr.hlaup kk: Bjarni Malmquist Jónsson hljóp á 55,28 sekúndum og varð í 7. sæti af 15 keppendum. Hann náði því í 9 stig.

Kringlukast kvk: Rakel Ósk Dýrfjörð Björnsdóttir kastaði 30,56 metra og varð í 12. sæti af 14 keppendum. Hún hlaut því 4 stig.

Þrístökk kvk: Dóróthea Jóhannesdóttir stökk 11,44 metra í lokatilraun og náði 10. sæti af 13 keppendum. Hún fær því 6 stig.

100 m hlaup kvk: Hafdís Sigurðardóttir hljóp á 12,04 sekúndum og varð í 2. sæti af 15 keppendum. Hún fær því 14 stig.

100 m hlaup kk: Kolbeinn Höður Gunnarsson hljóp á 10,85 sekúndum og varð í 5. sæti af 14 keppendum. Hann náði því í 11 stig.

800 m hlaup kvk: Aníta Hinriksdóttir hljóp á nýju Íslandsmeti, 2:01,17 mínútum, og vann hlaupið með yfirburðum. Hún hlaut fyrir það 15 stig.

Kúluvarp kk: Óðinn Björn Þorsteinsson kastaði 17,81 metra og varð í 2. sæti af 14 keppendum. Hann náði því í 14 stig.

1.500 m hlaup kk: Snorri Sigurðsson hljóp á 3:56,00 mínútum og varð í 4. sæti af 13 keppendum. Hann hlaut því 12 stig.

Hástökk kk: Hreinn Heiðar Jóhannsson stökk yfir 1,90 metra og varð í 12. sæti af 14 keppendum. Það skilaði Íslandi 4 stigum.

400 m hlaup kvk: Hafdís Sigurðardóttir hljóp á 54,03 sekúndum og varð í 3. sæti af 14 keppendum. Það skilaði Íslandi 13 stigum.

400 m hlaup kk: Ívar Kristinn Jasonarson hljóp á 49,02 sekúndum og varð í 9. sæti af 16 keppendum. Það skilaði Íslandi 7 stigum.

3.000 m hlaup kvk: Arndís Ýr Hafþórsdóttir hljóp á 10:04,75 mínútum og varð í 3. sæti af 14 keppendum. Hún skilaði Íslandi því 13 stigum.

Spjótkast kvk: Ásdís Hjálmsdóttir kastaði lengst 53,36 metra og varð í 2. sæti af 14 keppendum. Hún náði því í 14 stig.

Langstökk kk: Kristinn Torfason stökk lengst 6,62 metra og varð í 10. sæti af 15 keppendum. Það skilaði Íslandi sex stigum.

5.000 m hlaup kk: Ingvar Hjartarson hljóp á 15:08,26 mínútum og varð í 4. sæti af 14 keppendum. Það skilar Íslandi 12 stigum.

3.000 m hindrunarhlaup kvk: Helga Guðný Elíasdóttir hljóp á 12:22,23 mínútum og varð í 8. sæti af 9 keppendum. Það skilaði Íslandi 8 stigum.

4x100 m boðhlaup kvk: Þær Björg Gunnarsdóttir, Hafdís Sigurðardóttir, María Rún Gunnlaugsdóttir og Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir hlupu á 46,52 sekúndum og urðu í 2. sæti af 13 liðum. Það skilaði Íslandi 14 stigum.

4x100 m boðhlaup kk: Ísland varð í 11. sæti af þeim 11 sveitum sem luku keppni. Sveitin kom í mark á 45,95 sekúndum. Íslensku sveitina skipuðu þeir Arnór Jónsson, Kolbeinn Höður Gunnarsson, Ívar Kristinn Jasonarson og Helgi Björnsson. Þeir skiluðu Íslandi 5 stigum.

Hafdís Sigurðardóttir er hér á ferðinni, næstyst á mynd, í …
Hafdís Sigurðardóttir er hér á ferðinni, næstyst á mynd, í 100 metra hlaupinu sem skilaði henni silfri. Ljósmynd/Gunnlaugur Júlíusson
Aníta Hinriksdóttir var langfyrst í 800 metra hlaupinu þar sem …
Aníta Hinriksdóttir var langfyrst í 800 metra hlaupinu þar sem hún setti glæsilegt Íslandsmet og náði HM-lágmarki. Ljósmynd/Gunnlaugur Júlíusson
mbl.is