Ísland í 4. sæti á EM - Aníta náði í bæði gullin

Sveit Íslands var hársbreidd frá sigri í 4x400 metra boðhlaupi …
Sveit Íslands var hársbreidd frá sigri í 4x400 metra boðhlaupi eins og myndin sýnir. Ljósmynd/Gunnlaugur Júlíusson

Ísland hafnaði í 4. sæti í Evrópukeppni landsliða í frjálsum íþróttum í Slóvakíu í dag og vann sig upp um eitt sæti frá fyrri keppnisdeginum í gær. Íslenski hópurinn vann til verðlauna í átta greinum í dag.

Ísland hlaut samtals 437,5 stig en Moldóva varð í 3. sæti með 455,5 stig. Heimamenn í Slóvakíu unnu deildina og komust upp í 2. deild líkt og Lettar.

Líkt og í gær var það Aníta Hinriksdóttir sem stal senunni en hún vann til gullverðlauna í 1.500 metra hlaupi þar sem hún kom langfyrst í mark á 4:16,50 mínútum og bætti sig um 3 sekúndur. Aníta hafði áður unnið 800 metra hlaupið í gær á nýju Íslandsmeti.

Hún var einnig í sveit Íslands sem fékk silfur í 4x400 metra boðhlaupi eftir svakalega keppni við heimakonur sem höfðu betur á lokametrunum. Ísland fékk tvenn silfurverðlaun til viðbótar í dag. Kolbeinn Höður Gunnarsson fékk silfur í 200 metra hlaupi og tryggði sér þátttökurétt í greininni á Evrópumóti 19 ára og yngri í næsta mánuði. Guðmundur Sverrisson bætti sig einnig í spjótkasti og náði 2. sæti með 76,35 metra kasti.

Fjórir Íslendingar unnu svo til bronsverðlauna en það voru þau Sandra Pétursdóttir í sleggjukasti, Mark Johnson í stangarstökki, Arndís Ýr Hafþórsdóttir í 5.000 metra hlaupi og Ásdís Hjálmsdóttir í kúluvarpi.

Fylgst var með gangi mála í textalýsingu sem sjá má hér að neðan. Neðst í fréttinni eru öll úrslit íslenska hópsins.

16.59 - Þá er dagskránni lokið í dag. Ísland endaði í 4. sæti í stigakeppninni en heimamenn í Slóvakíu og Lettland náðu tveimur efstu sætunum og keppa því í 2. deild á næsta ári. Mbl.is þakkar fyrir sig.

16.58 - Íslenska karlasveitin varð í 7. sæti í sínum riðli. Tíminn hennar kemur neðst í fréttinni þegar hann liggur fyrir.

16.44 - Ísland er öruggt um 4. sætið í stigakeppninni og endar því í sama sæti og í síðustu tvö skipti. Slóvakía og Lettland eru á leiðinni upp um deild.

16.43 - Þá er bara 4x400 metra boðhlaup karla eftir og er Ísland í seinni riðlinum.

16.39 - Ég gleymdi að minnast á það að Kolbeinn Höður Gunnarsson náði lágmarki fyrir EM U19 ára með 200 metra hlaupinu sínu áðan. Hann hafði áður náð lágmarki í 400 metra hlaupi fyrir sama mót. Viðtal við hann er væntanlegt hér á mbl.is.

16.36 - Úff! Ísland var í forystu í 4x400 metra boðhlaupi kvenna þar til tveir metrar voru eftir en þarf að sætta sig við silfur. Hafdís Sigurðardóttir hljóp lokasprettinn vel þrátt fyrir að um fimmtu grein hennar í mótinu væri að ræða og kreisti fram síðustu bensíndropana í lokin en það dugði því miður ekki til. Slóvakía vann á sjónarmun.

16.34 - Var að fá það staðfest að Guðmundur Sverrisson kastaði 76,35 metra í fjórðu og síðustu tilraun og tvíbætti sig því í dag. Hann varð í 2. sætinu í spjótkastinu. Boðhlaupið er komið í gang og Ísland í forystu fyrir lokasprett!

16.28 - Fyrri riðillinn í 4x400 metra boðhlaupi kvenna hefur lokið sér af og nú styttist í að íslenska sveitin hlaupi. Hún er afar öflug að þessu sinni, skipuð þeim Anítu Hinriksdóttur, Stefaníu Valdimarsdóttur, Björgu Gunnarsdóttur og Hafdísi Sigurðardóttur sem var að ljúka langstökki rétt áðan.

16.23 - Ég á enn eftir að fá nákvæmar upplýsingar um hvernig spjótkastið endaði, auk þess sem það slokknaði á töflunni sem sýnir lengd kasta hérna á vellinum, en ég gat ekki betur séð en að Guðmundur Sverrisson hefði lengst kastað 75,42 metra, bætt sinn persónulega árangur sem sagt, og náð 2. sætinu.

16.20 - Hlynur Andrésson varð í 5. sæti í 3.000 metra hlaupi, síðustu hlaupagrein fyrir 4x400 metra boðhlaupin. Hann hljóp á 8:42,94 mínútum og náði í 11 stig fyrir Ísland.

16.12 - Það gengur voðalega illa að fá upplýsingar um nákvæma stöðu þessa stundina en Hafdís Sigurðardóttir tók 4. sætið í langstökkinu eins og búast mátti við fyrir fram. Hafdís stökk lengst 6,08 metra.

16.08 - Arndís Ýr Hafþórsdóttir hefur staðið vel fyrir sínu í mótinu og náði 3. sæti í 5.000 metra hlaupinu á 17:26,11 mínútum eftir góðan lokasprett. Þar með bætti hún sig um 10 sekúndur í greininni.

16.07 - Guðmundur var að ná sínum besta árangri í spjótkasti frá upphafi en hann kastaði 75,42 metra í 2. tilraun! Glæsilegt! Hann er þó enn í 2. sæti og þarf að kasta 79,15 metra til að ná 1. sætinu.

16.03 - Guðmundur Sverrisson fer vel af stað í spjótkastinu og er í 2. sæti eftir tvær umferðir. Hann kastaði 73,55 metra í fyrstu tilraun en þrír keppendur hafa katsað yfir 70 metra.

15.53 - Mér skilst að María Rún hafi náð 5. sætinu í hástökkinu en það er enn óstaðfest.

15.52 - Hafdís Sigurðardóttir var að stökkva 6,08 metra í þriðju tilraun sinni í langstökki. Það er enn nokkuð frá Íslandsmetinu hennar upp á 6,36 metra.

15.46 - María Rún felldi 1,70 metra í þrígang og er úr leik í hástökkinu. Ekki alveg ljóst enn hvaða sæti það skilar.

15.33 - Hafdís gerði ógilt í 2. tilraun sinni í langstökkinu.

15.31 - Kolbeinn Höður Gunnarsson stóð sig frábærlega í 200 metra hlaupinu og náði 2. sæti á 21,60 sekúndum sem er hans besti tími. Frábær árangur! Kolbeinn stakk sér fram fyrir keppinauta sína á lokametrunum og var meðal annars 1/100 úr sekúndu frá 3. sætinu.

15.30 - Arndís Ýr Hafþórsdóttir var að fara af stað í 5.000 metra hlaupi en hún hefur best hlaupið það á 17:36,53 mínútum.

15.30 - María Rún hefur stokkið yfir þrjár hæðir í hástökkinu, hæst 1,64 metra. Fjórir keppendur eru komnir yfir þá hæð og ein hefur enn ekki stokkið.

15.13 - Keppni í langstökki er einnig farin af stað og stökk Hafdís Sigurðardóttir 5,95 metra í fyrstu tilraun.

15.12 - Keppni í hástökki kvenna er hafin og ráin er í 1,55 metrum. María Rún Gunnlaugsdóttir situr hjá til að byrja með en hún hefur hæst stokkið yfir 1,73 metra og er með 5. besta skráða árangurinn.

15.07 - Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir var nálægt sínu besta í 200 metra hlaupi og náði 5. sæti. Hún virtist stífna aðeins upp í lok hlaupsins en kom í mark á 24,88 sekúndum.

14.56 - Það er farið að heyrast í kraftmiklum þrumum hér á vellinum en þó er þurrt veður sem stendur. Myndbandsviðtöl við Söndru Pétursdóttur og Ásdísi Hjálmsdóttur eru væntanleg. Ásdís greinir meðal annars frá því að þar til í apríl hélt hún að hún hefði þegar náð lágmarki fyrir heimsmeistaramótið í Moskvu, en svo er ekki.

14.47 - Ásdís Hjálmsdóttir hefur lokið sér af í kúluvarpinu og kastaði lengst 13,65 metra í fyrstu tilraun. Hún fær því væntanlega bronsið.

14.44 - Selfyssingurinn Fjóla Signý Hannesdóttir náði 6. sæti í 100 metra grindahlaupi á 14,64 sekúndum. 10 stig fyrir það!

14.41 - Arnar Pétursson átti góðan endasprett í 3.000 metra hindrunarhlaupi og kom sér upp í 7. sæti en hann hljóp á 9:43,59 mínútum sem er stórbæting á hans besta skráða tíma, um 24 sekúndur.

14.23 - Nýjustu upplýsingar um stöðuna í stigakeppninni eru þær að Ísland er komið vel upp fyrir Lúxemborg í 4. sætið. Ísland er með 281,5 stig samkvæmt síðustu tölum en Moldóva er í 3. sæti með 315,5 stig.

14.18 - Ásdís Hjálmsdóttir var að varpa kúlunni 13,65 metra í fyrstu tilraun og fagnaði því. Hún er í 2. sæti sem stendur.

14.06 - Blake Jakobsson varð í 5. sæti í kringlukastinu en hann kastaði lengst 48,70 metra. Hann skilaði Íslandi því 11 stigum.

13.49 - VÁ! Aníta Hinriksdóttir heldur heim frá Slóvakíu með góðar minningar. Hún var að vinna stórkostlegan sigur í 1.500 metra hlaupinu á 4:16,50 mínútum. Það er bæting um þrjár sekúndur hjá henni og aðeins 1,56 sekúndu frá Íslandsmeti Ragnheiðar Ólafsdóttur. Aníta hljóp fremst allan tímann en var með Biljönu Cvijanovic frá Bosníu í bakinu þar til í lokahringnum. Þá setti Aníta í algjöran fluggír við mikla hrifningu allra viðstaddra.

13.42 - Blake var að kasta 48,70 metra í kringlukastinu og kom sér upp um tvö sæti með því, í 5. sætið. Það styttist í að Aníta Hinriksdóttir fari af stað í 1.500 metra hlaupinu og það verður fróðlegt að sjá hvað hún á inni eftir magnaða frammistöðu í gær.

13.37 - Ísland fær 12 stig úr 800 metra hlaupi karla því Kristinn Þór Kristinsson stakk sér með frábærum endaspretti fram fyrir þrjá keppinauta sína og kom fjórði í mark. Hann var mjög nærri sínum besta árangri sem er 1:51,85 mínúta, en staðfestur tími birtist neðst í fréttinni þegar hann liggur fyrir.

13.32 - Bjarki Gíslason var að bæta sinn besta árangur í þrístökki með 14,20 metra stökki í 2. tilraun. Handargifsið ekkert að trufla hann. Hann er í 8. sæti sem stendur.

13.30 - Mark Johnson er úr leik í stangarstökkinu eftir að hafa fellt 5,20 metra öðru sinni en Guð minn góður hvað hann var nálægt því að fara yfir. Bringuhárin gerðu útslagið. Hann endar því í 3. sæti og náði í 13 stig fyrir Ísland.

13.28 - Blake kastaði 45 metra slétta í fyrstu tilraun sinni í kringlukastinu. Hann hefur lengst kastað 57,30 metra.

13.21 - Mark fór yfir 5,10 metra í 2. tilraun á meðan báðir keppinautar hans fóru yfir í fyrstu tilraun. Blake er að hefja leik í kringlukastinu og Bjarki í þrístökkinu. Næsta hlaupagrein er 800 metra hlaup karla þar sem Kristinn Þór Kristinsson keppir í seinni riðlinum.

13.15 - Mark Johnson er þegar búinn að tryggja sér 3. sætið í stangarstökkinu og var að fara yfir 5 metra í 2. tilraun. Slóvakinn Ján Zmoray gerði það í fyrstu tilraun og er í forystu. Lettinn Mareks Árentes á enn eftir að stökkva en aðrir eru úr leik.

13.08 - Ég minni á að staðfest úrslit hjá Íslendingunum koma inn hér neðst í fréttinni. Sandra Pétursdóttir er ein þar enn sem komið er.

13.06 - Helgi Björnsson bætti sig í 110 metra grindahlaupi og kom í mark á 16,04 sekúndum, annar í sínum riðli. Seinni riðillinn hleypur innan skamms.

13.05 - Ráin er komin í 4,90 metra í stangarstökkinu og þá fyrst hóf Mark Johnson keppni fyrir Íslands hönd. Skemmst frá því að segja að hann flaug hátt yfir byrjunarhæðina sína.

12.57 - Sandra Pétursdóttir náði 3. sætinu í sleggjukastinu! Það skilar 13 stigum í hús fyrir Ísland.

12.53 - Nú styttist í að fjörið hefjist almennilega. Helgi Björnsson (ekki leikarinn í Sódómu Reykjavík) er að gera sig kláran fyrir 110 metra grindahlaup. Blake Jakobsson byrjar bráðum að kasta kringlunni og hinn handarbrotni Bjarki Gíslason er að hita upp fyrir þrístökk.

12.43 - Sandra Pétursdóttir er að gera fína hluti í sleggjukastinu. Hún kastaði 50,62 metra í fyrstu tilraun, og svo 50,41 metra í þeirri næstu. Hún á þriðju tilraun eftir og einnig þá fjórðu því hún er á meðal fjögurra efstu keppenda.

12.30 - Það eru fjórir keppendur úr leik í stangarstökkinu en ráin er þó ekki komin nema í 4,10 metra. Mark byrjar líklega ekki fyrr en í 4,70 metrum. Nýjar reglur kveða á um að hver keppandi megi ekki fella rána nema fjórum sinnum samtals yfir alla keppnina. Menn eru einnig úr leik ef þeir fella sömu hæð þrisvar sinnum.

12.10 - Markmið dagsins hjá íslenska hópnum er að koma sér upp úr 5. sætinu, alla vega upp fyrir Lúxemborg sem náði 4. sætinu í lokagrein gærdagsins. Ísland er með 210 stig og Lúxemborg 213,5 stig. Það er hins vegar ansi langt í næstu lið en Moldóva og Lettland eru í 2.-3. sæti með 247,5 stig.

12.06 - Íslandsmethafinn Sandra Pétursdóttir, sem var fánaberi Íslands við setningu í gær, er að hefja keppni í sleggjukasti. Sleggjukastið fer því miður ekki fram hér á leikvanginum en ég mun nálgast upplýsingar um gang mála.

12.03 - Stangarstökkvarinn geðþekki Mark Johnson hefur keppni fyrir Íslands hönd. Hann er með næstbesta skráða árangurinn svo það má vonast eftir verðlaunum hjá honum. Fyrsti keppandi er að reyna við aðeins 2,85 metra en Mark á að geta farið yfir 5,10 metra.

12.00 - Góðan og blessaðan daginn! Aftur heilsar mbl.is ykkur í sólskinsveðri hér í miðri Slóvakíu en nú eru reyndar öllu fleiri ský á himni en í gær, og rigndi duglega fyrir tveimur tímum síðan.

-----------------------------------------------

Sleggjukast kvk: Sandra Pétursdóttir kastaði 50,62 metra í fyrstu tilraun og varð í 3. sæti. Hún náði því í 13 stig fyrir Ísland.

110 m gr.hlaup kk: Helgi Björnsson hljóp á 16,04 sekúndum og varð í 8.-9. sæti af 13 keppendum. Hann náði þar með í 7,5 stig fyrir Ísland.

Stangarstökk kk: Mark Johnson stökk yfir 5,10 metra og varð í 3. sæti af 11 keppendum. Hann náði þar með í 13 stig fyrir Ísland.

800 m hlaup kk: Kristinn Þór Kristinsson hljóp á 1:52,44 mínútu og varð í 4. sæti af 14 keppendum. Hann náði því í 12 stig fyrir Ísland.

1.500 m hlaup kvk: Aníta Hinriksdóttir hljóp á 4:16,50 mínútum og varð í 1. sæti af 13 keppendum. Hún náði því í 15 stig fyrir Ísland.

Kringlukast kk: Blake Jakobsson kastaði lengst 48,70 metra og varð í 5. sæti af 14 keppendum. Hann skilaði Íslandi því 11 stigum.

Þrístökk kk: Bjarki Gíslason stökk 14,20 metra og varð í 8. sæti af 15 keppendum. Hann náði því í 8 stig fyrir Ísland.

3.000 m hindrunarhlaup kk: Arnar Pétursson hljóp á 9:43,59 mínútum og varð í 7. sæti af 15 keppendum. Hann náði því í 9 stig fyrir Ísland.

Kúluvarp kvk: Ásdís Hjálmsdóttir kastaði 13,65 metra og varð í 3. sæti. Hún náði því í 13 stig fyrir Ísland.

100 m gr.hlaup kvk: Fjóla Signý Hannesdóttir hljóp á 14,64 sekúndum og varð í 6. sæti af 13 keppendum. Hún náði því í 10 stig fyrir Ísland.

200 m hlaup kvk: Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir hljóp á 24,88 sekúndum og varð í 5. sæti af 15 keppendum. Hún náði því í 11 stig fyrir Ísland.

200 m hlaup kk: Kolbeinn Höður Gunnarsson hljóp á 21,60 sekúndum og varð í 2. sæti af 15 keppendum. Hann náði því í 14 stig fyrir Ísland.

Hástökk kvk: María Rún Gunnlaugsdóttir stökk yfir 1,67 metra og varð í 5. sæti. Hún náði því í 11 stig fyrir Ísland.

5.000 m hlaup kvk: Arndís Ýr Hafþórsdóttir hljóp á 17:26,11 mínútum og varð í 3. sæti. Hún náði því í 13 stig fyrir Ísland.

Langstökk kvk: Hafdís Sigurðardóttir stökk 6,08 metra og varð í 4. sæti. Hún náði því í 12 stig fyrir Ísland.

3.000 m hlaup kk: Hlynur Andrésson hljóp á 8:42,94 mínútum og varð í 5. sæti. Hann náði því í 11 stig fyrir Ísland.

Spjótkast kk: Guðmundur Sverrisson kastaði 76,35 metra og varð í 2. sæti. Hann náði því í 14 stig fyrir Ísland.

4x400 m boðhlaup kvk: Aníta Hinriksdóttir, Stefanía Valdimarsdóttir, Björg Gunnarsdóttir og Hafdís Sigurðardóttir hlupu á 3:39,14 mínútum og urðu í 2. sæti. Þær náðu því í 14 stig fyrir Ísland.

4x400 m boðhlaup kk: Ívar Kristinn Jasonarson, Kristinn Þór Kristinsson, Snorri Sigurðsson og Kolbeinn Höður Gunnarsson hlupu á 3:15,26 mínútum og urðu í 7. sæti af 15 liðum. Það skilaði Íslandi 9 stigum.

Kolbeinn Höður Gunnarsson, hér yst á mynd, náði lágmarki fyrir …
Kolbeinn Höður Gunnarsson, hér yst á mynd, náði lágmarki fyrir EM U19 ára þegar hann náði silfri í 200 metra hlaupi. Ljósmynd/Gunnlaugur Júlíusson
Aníta Hinriksdóttir stakk keppinauta sína snemma af í 800 metra …
Aníta Hinriksdóttir stakk keppinauta sína snemma af í 800 metra hlaupi í gær og vann einnig 1.500 metra hlaupið. Ljósmynd/Gunnlaugur Júlíusson
Ásdís Hjálmsdóttir varpar kúlunni í Slóvakíu í dag.
Ásdís Hjálmsdóttir varpar kúlunni í Slóvakíu í dag. Ljósmynd/Gunnlaugur Júlíusson
Blake Jakobsson varð í 5. sæti í kringlukastinu.
Blake Jakobsson varð í 5. sæti í kringlukastinu. Ljósmynd/Gunnlaugur Júlíusson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert