Aníta bætti Íslandsmetið í Mannheim

Aníta Hinriksdóttir.
Aníta Hinriksdóttir. mbl.is/Kristinn

Aníta Hinriksdóttir úr ÍR bætti enn Íslandsmet sitt í 800 metra hlaupi kvenna í dag þegar hún vann öruggan sigur í greininni á ungmennamótinu DLV Junioren Gala í Mannheim í Þýskalandi.

Aníta hljóp vegalengdina á 2:00,49 mínútum en metið sem hún setti í síðustu viku var 2:01,17 mínútur. Það var einmitt á þessu móti fyrir ári sem Aníta sló fyrst Íslandsmetið í greininni, þá aðeins 16 ára gömul.

Aníta tók forystuna í hlaupinu í dag eftir 200 metra og var ekki ógnað eftir það. Christina Herring frá Þýskalandi varð önnur á 2:03,94 mínútum.

Sem kunnugt er hafði Aníta tryggt sér keppnisrétt í 800 metra hlaupinu á heimsmeistaramótinu í Moskvu með árangri sínum en hún ætlar ekki að fara þangað, heldur einbeita sér að heimsmeistaramóti U17 ára og Evrópumóti U19 ára í sumar.

Kolbeinn Höður Gunnarsson úr UFA keppti í 200 m hlaupi karla í Mannheim fyrr í dag og varð sjötti á 21,95 sekúndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert