Setti tvö heimsmet og tíu Evrópumet

Kristín Þorsteinsdóttir.
Kristín Þorsteinsdóttir. Ljósmynd/Facebook

Sundkonan Kristín Þorsteinsdóttir frá Sundfélaginu Ívari á Ísafirði hélt í dag áfram að vera það gott á Evrópumeistaramóti DSISO á Ítalíu, en DSISO eru alþjóðleg sundsamtök einstaklinga með Downs-heilkenni.

Kristín bætti við öðru heimsmeti á síðasta keppnisdegi Evrópumeistaramótsins. Í 25 metra flugsundinu setti hún Evrópumet í undanrásunum og hún bætti það svo í úrslitasundinu þegar hún kom fyrst í mark á nýju heims- og Evrópumeti.

Þá tvíbætti hún Evrópumetið í 50 metra skriðsundi og uppskera hennar á mótinu var glæsileg. Kristín setti tvö heimsmet og tíu Evrópumet, vann til fimm gullverðlauna og vann ein silfur- og bronsverðlaun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert