Taldar sleppa keppnum við Anítu vegna lyfjaprófa

Mariya Savinova og Ekaterina Poistogova, hér ásamt þjálfara sínum Vladimir …
Mariya Savinova og Ekaterina Poistogova, hér ásamt þjálfara sínum Vladimir Kazarins, tóku gull og brons í 800 metra hlaupi á ÓL í London 2012. Lagt er til í nýrri skýrslu WADA að þær fái báðar lífstíðarbann vegna lyfjamisnotkunar. AFP

Í frjálsum íþróttum hafa Rússar ekki síst staðið framarlega í 800 metra hlaupi kvenna, grein sem er Íslendingum að góðu kunn vegna framgöngu Anítu Hinriksdóttur á síðustu árum. Af keppendunum fimm sem lagt er til í skýrslu Alþjóðalyfjaeftirlitsins að fái lífstíðarbann, voru tvær verðlaunahafar í 800 metra hlaupi kvenna á ÓL í London; Maria Savinova og Ekaterina Poistogova. Á allra síðustu misserum hefur þetta hins vegar breyst og athygli vekur að á HM í Peking í ágúst, þar sem Aníta varð í 20. sæti, var enginn rússneskur keppandi fyrir ofan hana. Þar gæti spilað inn í að vinnu við skýrsluna var að ljúka.

„Maður hefur kynnst mörgum af þessum íþróttamönnum og vill auðvitað trúa því að þeir hafi ekki rangt við. Það yrði líka gríðarlegur sjónarsviptir að rússneskum íþróttamönnum á stórmótum. Þess vegna vill maður í lengstu lög ekki trúa því að þetta hafi verið með þeim hætti sem sagt er í skýrslunni,“ sagði Gunnar Páll Jóakimsson, þjálfari Anítu, við Morgunblaðið í gær. Hann segir hins vegar að niðurstöður skýrslunnar komi ekkert sérstaklega á óvart.

„Rússarnir voru rosalega sterkir í öllum millivegalengdahlaupum en það hefur dregið svakalega úr því á allra síðustu árum, eftir Ólympíuleikana 2012. Núna eru sárafáir frá þeim á stórmótum og ekkert af stærstu nöfnunum var á HM í Peking. Það hefur auðvitað verið uppi orðrómur um það að keppendur sem eru sagðir „veikir“ eða „meiddir“ á stórmótum hafi einfaldlega fallið á lyfjaprófi heima í Rússlandi, án þess að frá því væri greint, og því ekki verið sendir. Þetta hefur verið sú skýring sem menn hafa haft á því að þetta stórveldi í þessum greinum sé ekki nema svipur hjá sjón. Það kemur því ekki beint á óvart að það hafi eitthvað „stórt“ verið í gangi hjá Rússum,“ sagði Gunnar Páll.

Fréttaskýringu um málið ásamt lengra viðtali við Gunnar Pál má sjá í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert