Hörð samkeppni á Ólympíumótinu í Ríó

Jón Margeir Sverrisson vakti mikla athygli á Ólympíumótinu í London.
Jón Margeir Sverrisson vakti mikla athygli á Ólympíumótinu í London. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á vef BBC er fjallað um Ólympíumót fatlaðra í Ríó á næsta ári þar sem útskýrt er fyrir lesendum að samkeppnin um verðlaun fer harðnandi. Bretar hafa átti góðu gengi að fagna á Ólympíumótunum og aldrei verið neðar en fimmta sæti þegar fjöldi verðlauna er lagður saman.

Í greininni kemur fram að æ fleiri þjóðir taki þátt af krafti í íþróttum fatlaðra og æ meira fé sé sett í málaflokkinn með það fyrir augum að ná toppárangri á alþjóðavísu.

Bretar urðu í þriðja sæti á heimavelli 2012 á listanum yfir flest verðlaun. Forráðamenn Íþróttasambands fatlaðra í Bretlandi segjast vongóðir um að Bretar muni eins og áður vinna til fjölda verðlauna í Ríó en vara við því að samkeppnin sé meiri en áður.

Í það minnsta tveir Íslendingar eru taldir eiga ágæta möguleika á verðlaunum í Ríó. Sundmaðurinn Jón Margeir Sverrisson úr Fjölni sem er ríkjandi meistari og spjótkastarinn Helgi Sveinsson úr Ármanni sem er heimsmethafi.

mbl.is