„Ég er rétt að byrja“

Gunnar Nelson áttist við Demian Maia í bardaga sem fór …
Gunnar Nelson áttist við Demian Maia í bardaga sem fór fram í Las Vegas um helgina. Gunnar beið lægri hlut að þessu sinni. AFP

„Ég berst ég verst, ég vinn ég tapa,“ segir bardagamaðurinn Gunnar Nelson. „Ég er rétt að byrja,“ segir hann ennfremur í skilaboðum sem birtust á facebooksíðu Mjölnis.

„Ég skríð aftur á lappirnar, hristi fjaðrirnar og minni sjálfan mig á að ef þetta væri ekki krefjandi, erfitt, þungt og óendanlega spennandi verkefni væri það ekki þess virði fyrir mig,“ skrifar Gunnar. 

Hann þakkar um leið öllum sem hafa stutt hann, m.a. vinum, fjölskyldunni og félögum sínum í Mjölni. „Takk fyrir að vera eins og klettur við bakið á mer i gegnum súrt og sætt.“

Jón Viðar Arnþórsson, forseti Mjölnis, sagði í gær, að Gunnar hefði verið óbrotinn og ekki með hausverk þrátt fyrir að hafa verið laminn 142 sinnum í andlitið af Brasilíumanninum Damien Maia í bardaga þeirra í Las Vegas aðfaranótt sunnudags.

Hann segir að höggin sem Gunnar fékk hafi ekki verið nógu þung til þess.

„Þótt hann hafi verið svolítið marinn í framan og fengið blóðnasir var ekkert af höggunum það þungt að hann meiddi sig eitthvað. Hann var ekki með neinn hausverk á eftir eða neitt svoleiðis,“ segir Jón Viðar.

Hafrún Kristjánsdóttir, sviðsstjóri íþróttafræðisviðs Háskólans í Reykjavík, benti á að höfuðhöggin sem Gunnar fékk í bardaganum ykju líkur á að hann þróaði með sér CTE-heilabilun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert