Gamall vani að setja hann í skeytin

Harður slagur við mark SA í kvöld þar sem Úlfar …
Harður slagur við mark SA í kvöld þar sem Úlfar Andrésson úr Birninum sækir en Róbert Steingrímsson reynir að loka marki Akureyringa. mbl.is/Þórir Ó. Tryggvason

Helgi Gunnlaugsson, íshokkíleikmaður SA-Víkinga, er ekki oft á markaskoraralista liðs síns en í kvöld smellti hann pökknum í nærskeytin úr vonlausu færi. Var lið hans að leika gegn Birninum í Hertz-deildinni á Akureyri en markið dugði skammt þar sem SA tapaði illa með fimm mörkum gegn átta.

Helgi, sem virðist eiga sér öflugan aðdáendaklúbb, jafnt á heima- sem útileikjum, var rifinn í viðtal að leik loknum og var hann hinn brattasti. ,,Þetta er bara gamall vani að setja hann svona í skeytin. Annars vorum við ekki nógu góðir, eitthvað ryðgaðir eftir áramótin. Þeir voru einfaldlega miklu grimmari en við og varnarleikurinn var slakur hjá okkur. Við fengum fleiri færi en nýttum þau alveg svakalega illa. Ég verða að hrósa markvörslunni hjá Birninum, þeir vörðu eins og vitleysingar. Þess vegna fór þetta svona. Kannski vorum við of sigurvissir en allavega þá vorum við ekki klárir í þennan leik. Það er bara að taka næsta leik á föstudaginn í staðinn.“

En hvað er maðurinn að gera á svellinu eftir hlé síðustu ár? ,,Ég er búinn að vera í námi en ákvað að taka eitt tímabil, svona í restina. Ég er orðinn 37 ára en er þó ekki elstur þar sem Siggi Sig er 39 ára. Það er klárt að tímabilin verða ekki fleiri hjá mér. Þetta er svo tímafrekt og konan er ekki mjög hrifin“ sagði Helgi glettinn að skilnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert