Esja slökkti í vonum Bjarnarins með sigri

Esjumenn fagna í kvöld.
Esjumenn fagna í kvöld. Eva Björk Ægisdóttir

Björninn og Esja áttust við í hörkuspennandi leik í Hertz-deild karla í íshokkí í kvöld. Leiknum lauk með sigri Esju sem gerði sjö mörk gegn fjórum mörkum Bjarnarmanna.

Björninn, sem er í þriðja sæti tíu stigum á eftir Esju, þurfti nauðsynlega á sigri að halda ætluðu þeir sér að halda möguleikum sínum á að komast í úrslitakeppnina opnum. Þeir byrjuðu leikinn líka með látum og komust í 2:0 með mörkum frá þeim Elvari Ólafssyni  og Andra Má Helgasyni.

Esjumenn náðu hins vegar vopnum sínum og áður en lotan var úti höfðu þeir náð að jafna með mörkum frá Pétri Maack og Brynjari Bergmann. Esjumenn voru ekki hættir og fljótlega í öðrum leikhluta höfðu þeir náð tveggja marka forystu. Ryley Egan sá hinsvegar til þess að munurinn var aðeins eitt mark þegar hann hamraði pökkinn í netið.

Þriðja lotan var hinsvegar rétt hafin þegar Ólafur Hrafn Björnsson skoraði glæsilegt mark fyrir Esju. Í kjölfarið fylgdu tvö mörk í viðbót frá Esju  og liðið komið í fjögurra marka forystu. Ryley Egan minnkaði muninn í þrjú mörk um fimm mínútum fyrir leikslok og þrátt fyrir að taka markmann sinn af velli dugði það ekki til að fleiri mörk litu dagsins ljós.

Esjan er því áfram fjórum stigum á eftir SA Víkingum og á enn ágætis möguleika á að ná heimaleikjaréttinum í úrslitunum sem fara fram í lok febrúar.

Mörk/stoðsendingar Bjarnarins:
Ryley Egan 2/0
Andri Már Helgason 1/1
Elvar Freyr Ólafsson 1/0
Úlfar Jón Andrésson 0/1
Charles Williams 0/1
Falur Birkir Guðnason 0/1

Refsingar Bjarnarins: 10 mínútur

Mörk/stoðsendingar Esju:
Brynjar Bergmann 3/0
Gunnar Guðmundsson 1/2
Daníel Kolar 1/1
Ólafur Hrafn Björnsson 1/1
Pétur Maack 1/0
Andri Freyr Sverrisson 0/2
Andri Þór Guðlaugssson 0/1
Róbert Freyr Pálsson 0/1

Refsingar Esju: 12 mínútur.

Úr leik Esju og Bjarnarins í kvöld.
Úr leik Esju og Bjarnarins í kvöld. Eva Björk Ægisdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert